142. löggjafarþing — 17. fundur,  1. júlí 2013.

stofnun og tilgangur ríkisolíufélags.

10. mál
[12:07]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og deili áhuga hans á þessu viðfangsefni og þeim málaflokki sem ég er að koma tiltölulega ný að í mínu nýja embætti. Ég get strax í upphafi róað hv. þingmann um að ekki er að verða stefnubreyting hér á frá því sem hann rakti vel í fyrirspurn sinni.

Eins og fram kemur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar mun ríkisstjórnin stuðla að aukinni þekkingu á sviði leitar og vinnslu á olíu og gasi hjá íslenskum aðilum með þrennum hætti. Í fyrsta lagi með ýmiss konar undirbúningsvinnu og yfirferð á regluverki í kjölfar nýlegrar útgáfu rannsóknar- og vinnsluleyfa á Drekasvæðinu. Í öðru lagi með auknu samstarfi við nágrannalönd og í þriðja lagi, sem hv. þingmaður spyr um, með stofnun sérstaks ríkisolíufélags.

Stofnun ríkisolíufélags til að gæta íslenskra hagsmuna er því einn liður í því að stuðla að aukinni þekkingu innlendra aðila á þessu sviði. Eins og hv. þingmaður nefndi er sérstök heimild þegar til staðar í lögum til að stofna ríkisolíufélag um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis. Þetta eru lög nr. 13/2001, með breytingum sem hv. þingmaður nefndi frá árinu 2008. Þar kemur skýrt fram í athugasemdum við lagafrumvarpið, með leyfi forseta:

„Þess ber þó að gæta að ekki er lagt til að íslenska ríkið taki beint þátt í vinnslu á kolvetni heldur er um að ræða að gæta hagsmuna íslenska ríkisins er varða auðlindina sjálfa sem og fjárhagslega hagsmuni ríkisins af vinnslu kolvetnis.“

Ég vil því svara því hreint út að ekki stendur til að slíkt ríkisolíufélag starfi sem vinnslufyrirtæki og því er ekki að verða nein breyting á þeim lögum enda er í fyrrnefndum lögum kveðið á um að það sé óheimilt. Ég ítreka að það stendur ekki til á þessu stigi að minnsta kosti að víkja frá því. Hvað seinna gerist í framtíðinni er annarra að taka ákvörðun um, en hér er ekki verið að víkja frá þeirri stefnu.

Ríkisolíufélagið mundi hafa með höndum gæslu íslenskra hagsmuna vegna olíuvinnslunnar til dæmis á þeim hluta Jan Mayen-hryggjarins sem tilheyrir norskri efnahagslögsögu samanber samkomulagið sem hv. þingmaður nefndi og ég get tekið undir að sé einn af bestu samningum sem íslenska ríkið hefur gert frá árinu 1981. Í grunninn gæti fyrirmyndin að hinu íslenska ríkisolíufélagi verið hið norska ríkisolíufélag Petoro en það félag er í eigu norskra stjórnvalda og heldur utan um þau sérleyfi til leitar og vinnslu á olíu og gasi sem er í eigu norskra stjórnvalda og gætir þannig hagsmuna Noregs. Þannig fer Petoro með 25% hlut í þeim tveimur sérleyfum sem veitt var í byrjun árs af Orkustofnun til rannsókna og vinnslu kolvetnis á Drekasvæðinu.

Ekki liggur fyrir nákvæm tímasetning um hvenær ráðherra hyggist notfæra sér áðurnefnda heimild í kolvetnislögunum til að stofna ríkishlutafélag. Það þarf að skoða þá þætti vel, alla þætti málsins innan stjórnsýslunnar og er vinna þegar hafin á því innan hennar. Í því skyni ber að hafa í huga, og sérstaklega í ljósi orða hv. þingmanns um kaflaskiptin, að ekki er ráðgert að norsk stjórnvöld hefji útboð á sérleyfum innan norska hlutans á Jan Mayen-svæðinu fyrr en árið 2015 í fyrsta lagi.

Íslensk stjórnvöld ættu í því útboði rétt á 25% þátttöku í veittum leyfum með vísan til Jan Mayen-samkomulagsins fyrrnefnda. Hins vegar ber að geta að Íslendingar, og það er kannski það sem gerir þetta samkomulag svo hagstætt fyrir okkur, þurfa ekki samkvæmt samkomulaginu að nýta rétt sinn fyrr en boranir hafa gefið upplýsingar um að olía sé fundin í vinnanlegu marki. Með vísan til þessa má því segja að nægur tími sé til að stofna ríkisolíufélagið ef horft er til gæslu íslenskra hagsmuna á Jan Mayen-svæðinu.

Ég tel hins vegar farsælast að fá skýrar línur í þessi mál fljótlega og vísa í stjórnarsáttmálann með það að markmiði. Það er ætlun mín að kynna fyrir lok komandi löggjafarþings með hvaða hætti slíkt ríkisolíufélag eða olíufélag í eigu ríkisins verði stofnsett og formgert og er undirbúningur þess þegar hafinn innan stjórnsýslunnar. Við höfum sem sagt tímann fyrir okkur og ég sé fyrir mér að þetta væri dæmi um mál sem hægt væri að hefja vinnu við, að skrifa frumvarp í ráðuneytinu, leggja það jafnvel fram til kynningar og leita umsagna áður en það verður lagt fram á þinginu til endanlegrar afgreiðslu.