142. löggjafarþing — 17. fundur,  1. júlí 2013.

verðtryggð námslán.

13. mál
[12:24]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það var rétt sem hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir nefndi áðan, eða kom fram í máli hennar öllu heldur, að hér er ekki um að ræða námsmenn. Hér er um að ræða þá sem hafa nú þegar tekið námslán sem tóku þessum breytingum á þeim verðbólgutíma sem verið er að vísa til, og verið er að skoða slík lán. Aftur á móti nefndi hv. þingmaður eitt í fyrirspurn sinni, sem ég hef kannski ekki gert alveg nægilega grein fyrir, þ.e. spurningin um hvort breyta eigi námslánum sem nú eru verðtryggð í óverðtryggð lán. Ég vildi kannski nefna það sérstaklega vegna þess að það er ekki alveg sjálfgefið að það henti öllum að gera slíkt. Það að breyta yfir í óverðtryggð lán hangir þá á því að lítil verðbólga sé og menn haldi henni í skefjum (Gripið fram í.) — það sem ég er að nefna er bara það að almennt er ég ekki viss um að það borgi sig að setja einhver lög sem algerlega loki á slíkt, það er bara mín skoðun og ég gerði mjög vel grein fyrir henni fyrir kosningar og er enn þeirrar skoðunar að það gæti verið óskynsamlegt að banna mönnum slíkt.

Það sem skiptir mestu máli í þessari umræðu er að fyrir liggur þingsályktunartillaga um hvernig skuli staðið að þeim málum. Það er undir forustu hæstv. forsætisráðherra. Ég tel að skynsamlegt sé og eðlilegt að þetta fljóti allt saman þannig að niðurstöður þeirrar vinnu liggi þá fyrir. Ég tel að þessi fyrirspurn sé ágætlega til þess fallin að vekja athygli á einmitt þessum lánum. (Gripið fram í: Þú er þá ósammála stefnunni.) Hér er kallað fram í að ég sé ósammála stefnunni. Nei, það er langt í frá. Ég er mjög sammála því að grípa þurfi til aðgerða og ég er sammála því verklagi sem lagt er upp með, þ.e. að skipa sérfræðinefndir til að tryggja að þetta verði einmitt heildræn og heildstæð nálgun til að taka á vandanum öllum í heild en ekki í einhverjum bitum. Þess vegna svara ég með þessum hætti. Ég tel að þessi lán eins og önnur sem um er verið að fjalla eigi að fara saman í þessari vinnu, menn eigi ekki að taka og rífa það úr einhverju samhengi.