142. löggjafarþing — 17. fundur,  1. júlí 2013.

framtíð Fisktækniskóla Íslands.

23. mál
[12:38]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Páll Valur Björnsson) (Bf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu og svör hæstv. menntamálaráðherra. Ég er alveg sammála, ég hefði viljað hafa þau afdráttarlausari þannig að skólinn fengi örugglega framgang og yrði á fjárlögum á næsta ári. Það er gríðarlega mikilvægt. Skólinn hefur sannað gildi sitt, sérstaklega í vetur. Hann nefndi að það hefur gengið illa að fá nemendur inn í skólann en það var vegna þess að starfsleyfin komu svo seint að búið var að missa nemendur þess árs sem voru að sækja um í skólanum, það var búið að missa þá í aðra skóla. Það var ástæðan fyrir því að þetta gekk svona brösuglega og hefur gengið mjög illa. Það er í rauninni allt vegna þeirrar miklu óvissu sem hefur ríkt um skólann. Það er sú óvissa sem er alls staðar í þjóðfélaginu, ég er ekkert að segja það, sem þarf að eyða. Eins og hefur komið fram í máli hv. þingmanna úr Grindavík og hjá hv. þm. Össuri … (Gripið fram í.) já, er þetta gríðarlega mikilvægur skóli, ekki síst í ljósi þess að þetta er ein mikilvægasta atvinnugrein okkar Íslendinga og líka í ljósi þess að við erum með tvo landbúnaðarháskóla. Það er í rauninni alveg ótrúlegt að þessum skóla hafi ekki verið komið á laggirnar fyrir löngu því að það hefur átt sér stað mikil nýsköpun og þróun í sjávarútvegi á undanförnum árum. Ég get nefnt Codland og Sjávarklasann og sem til dæmis leggja mikla áherslu á að þessi skóli vinni saman með þessu verkefni sem er ótrúlega spennandi og í því er fólgið að auka virði fiskafla á Íslandi.

Við stöndum framar öðrum þjóðum í því. Við erum „stórastir“ í því. Það eru samsvarandi skólar til dæmis á Norðurlöndum — (ÖS: Íslenska er þingmálið.) Já, við erum stærstir, herra forseti, í því. Þeir eru myndarlega styrktir og eru jafnvel með skip og kvóta og eru mjög eftirsóttir skólar, bæði í Danmörku og Noregi. Nýlega fékk Fisktækniskóli Íslands 13 millj. kr. frá norrænu ráðherranefndinni til að auka samstarf milli þessara skóla undir stjórn íslenska skólans.