142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

aflandsreikningar og skatteftirlit.

[15:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Já, ég get svo sem ekki annað sagt við þessu en að mér finnst sjálfsagt að gerðar verði ráðstafanir til þess að fá þær upplýsingar sem kunna að standa okkur til boða. Við eigum að taka mjög alvarlega öllum tilraunum, allri viðleitni til þess að sporna við skattsvikum, við því að svíkjast undan því að leggja samfélaginu til á jafnræðis- og sanngirnisgrundvelli. Vegna þess að hv. þingmaður spurði að því áðan hvort ekki væri ástæða til að ætla að einhverjir íslenskir aðilar ættu þarna einhvers staðar hlut að máli held ég að við hljótum alltaf að gera ráð fyrir því að það sé eins hér og annars staðar að það kunni að vera gerðar tilraunir til að komast undan lögboðnum skattgreiðslum og af þeirri ástæðu þurfum við að fylgjast vel með. Á undanförnum árum hefur verið mjög að aukast samstarf ríkja til að komast í kringum allar slíkar tilraunir. Því ber að taka (Forseti hringir.) fagnandi og við Íslendingar höfum ekki efni á öðru en að nýta okkur það eins og hægt er.