142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Herra forseti. Í fréttum RÚV hefur verið fjallað um eftirlit með eldhúsáhöldum og öðrum vörum sem komast í snertingu við mat og ég vil vekja athygli þingsins á þessu máli.

ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, gaf nýlega út skýrslu um eftirlitsheimsókn sína hingað til lands og er meginniðurstaðan að eftirlit með þessum vörum þurfi að bæta og samræma. Þá er einnig bent á í skýrslunni að Ísland hafi ekki innleitt reglugerð Evrópusambandsins um eftirlit með eldhúsáhöldum úr plasti frá Hong Kong og Kína og ef Ísland bæti ekki úr snarlega gætum við átt á hættu að verða dregin fyrir dóm.

Mér finnst þetta alvarlegt. Skaðleg efni í neysluvörum eru raunverulegt vandamál og það er líka aragrúi efna í umferð sem ekki hafa verið áhættumetin til hlítar.

Í Danmörku hafa þessi mál verið tekin nokkuð föstum tökum. Mig langar að segja frá því að gerð var rannsókn árið 2005 sem leiddi í ljós að 63% svartra plasteldhúsáhalda innihéldu krabbameinsvaldandi efni. Í framhaldinu var farið í mikið átak og kom í ljós að stór hluti danskra fyrirtækja og innflytjenda hafði ekki ásættanlegt innra eftirlit með vörum. Yfirvöld fóru í mikið átak og var neytendum meðal annars ráðlagt að henda gömlum svörtum plastáhöldum.

Hér á landi hafa aldrei verið gerðar stikkprufur á umbúðum, áhöldum eða öðrum vörum sem komast í snertingu við mat og það er eitt af því sem ESA gagnrýnir í skýrslunni. Slíkt eftirlit er að mínu mati nauðsynlegt en það kostar vissulega sitt. Neytendur ættu auðvitað ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því að skaðleg efni séu í neysluvörum, hvaða nafni sem þær nefnast.

Við höfum innleitt efnalöggjöf Evrópusambandsins og það var stórt skref í rétta átt þótt vissulega hafi efnaframleiðendur með mikilli hagsmunagæslu náð að þynna út löggjöfina. Löggjöfin þyrfti að vera betri út frá hagsmunum neytenda, en á meðan svo er ekki er að minnsta kosti lágmark að þeirri löggjöf sem þó hefur verið sett í Evrópusambandinu sé fylgt og að íslensk stjórnvöld trassi ekki (Forseti hringir.) að innleiða reglur sem miða að því að vernda öryggi og heilsu fólks.