142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[19:33]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem hér í seinni ræðu mína í 2. umr. um veiðileyfagjöldin. Í fyrri ræðu minni rakti ég söguna og vakti athygli á því að deilurnar sem eru um sjávarútveginn og einkum auðlindagjöld og greiðslur fyrir afnot af þessari sameiginlegu þjóðareign okkar hafa staðið í raun allt frá því að kvótakerfið kom á. Síðan hafa verið stofnaðar margar nefndir, m.a. auðlindanefndin í kringum 2000, síðan tvíhöfðanefnd og ég kann nú ekki nöfnin öll. Ég var búinn að fara yfir það. Síðasta nefndin sem starfaði var starfshópur um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða. Ég ætla aðeins að styðjast við gögn úr skýrslu þessa starfshóps um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða, ýmis álitamál, greiningar, skýrslur og valkosti við breytingar á stjórn fiskveiða. Hún er frá september 2010.

Tónninn sem þá var sleginn enn einu sinni var um að leita sátta. Tónninn sem var sleginn núna þegar ný ríkisstjórn byrjaði var líka að það ætti að auka sátt, samheldni og samvinnu í íslensku þjóðfélagi. Það er full ástæða til að taka undir mikilvægi þess að við reynum að stilla strengi og ná saman en þá verður að vera ljóst við hverja sáttin á að vera og milli hverra.

Þess vegna var mjög skrýtið að sjá þessa breytingu á veiðileyfagjöldum. Það eru gerðar töluverðar breytingar en fyrst og fremst er þar dregið verulega úr álagningu veiðileyfagjalda með þessu frumvarpi sem ríkisstjórnin flytur sem eitt af sínum forgangsmálum. Þetta er þeim mun illskiljanlegra þegar maður hugsar til hugmynda um að ná sátt vegna þess að það hefur líka komið í ljós í framhaldinu að þjóðin er ekki tilbúin að gefa neinn afslátt af því að þjóðareignin skili af sér beinum arði eða greiðslum, auðlindarentu eða auðlindagjaldi til samfélagslegra nota. Það hefur orðið til þess að 35 þús. einstaklingar eða þar um kring hafa skrifað undir og skorað á Alþingi fyrst og fremst að hætta við áformin um lækkun á veiðileyfagjaldinu. Til vara er svo bent á að ef Alþingi samþykkir samt þessar breytingar grípi forsetinn inn í og setji málið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég segi að þetta sé þeim mun merkilegra vegna þess að það urðu töluverðar umræður um veiðileyfagjaldið í fyrravor, á síðasta þingi, þar sem menn voru að ræða hvað væru eðlilegar upphæðir og hvernig ætti að skipta þessu. Þar kom að lokum að menn sættust á nokkurn veginn hvaða upphæð ætti að vera á bak við þá lagasetningu. Nú er hins vegar hopað frá því og gefinn afsláttur strax á þessu ári um 3,2 milljarða, á ársgrundvelli 6,4. Það er erfitt að sjá hvernig það á að leiða til þess að hér aukist sátt um sjávarútveginn, eins mikilvægt og það er að slík sátt náist. Ég hef ítrekað sagt, allt frá því að ég var í þessum starfshópi, og þar áður raunar, að aðalatvinnugreinin okkar, stærsta útflutningsgreinin, ein mikilvægasta atvinnugreinin, á ekki að búa við það að stöðugt sé tekist á um starfsumhverfi hennar, það þarf að finna leiðir til að koma þessu í eðlilegt umhverfi til langs tíma þar sem menn geta vitað að hvaða leikreglum þeir ganga, hvaða lögmál gilda í sambandi við þennan atvinnurekstur eins og allan annan í landinu, bæði hvað varðar gjaldtöku og skattlagningu.

Allt frá því að kvótakerfið var sett hefur verið rætt um auðlindagjöld eða auðlindarentu. Síðasta ríkisstjórn barðist fyrir því að hér yrði gjaldtaka, það yrði sett skýrt ákvæði inn í stjórnarskrá til að taka endanlega af allan vafa um að sjávarauðlindirnar væru þjóðareign og ættu að nýtast sem slíkar, að það ætti að koma til gjald og menn gætu fengið afnotarétt til tilgreinds tíma að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Það ætti líka að gæta jafnræðis í sambandi við úthlutun á þessum auðlindum.

Það var í rauninni niðurstaða í þessum starfshópi á sínum tíma að mæla með tiltekinni leið. Af hverju? Vegna þess að allir væru sáttir við þá leið sem forgangsleið? Nei, vegna þess að menn vildu slá af til að gera tilraun til að ná sátt.

Árið 2000 var líka tekist á um tvær meginleiðir, hvort fara ætti fyrningarleið eða taka upp veiðigjald. Mér er sagt af þeim sem þá unnu að málum að deilan hefði verið býsna hörð og hefði í sjálfu sér getað fallið á hvorn veginn sem var á þeim tíma, en niðurstaðan varð engu að síður eftir töluvert mikla vinnu að taka upp veiðileyfagjald og fyrningarleiðin var sett til hliðar.

Þessi álitamál komu aftur upp í starfshópnum þar sem meðal annars Samfylkingin lagði fram hugmyndir um svokallaða tilboðsleið þar sem var lögð fram hugmyndin um að gjaldtaka í sjávarútvegi færi í gegnum markaði og menn kölluðu inn ákveðinn hluta af veiðiheimildum á hverju ári og seldu til baka réttinn til að nýta auðlindina í tilgreindan tíma og einhver ákveðinn hluti væri á markaði. Það var talað um 5–8% á hverju ári og þeir sem vildu viðhalda sínum aflaheimildum yrðu þá að borga gjald í gegnum þennan markað, tilboðsmarkað, og þar með væri búið að ákveða gjaldtökuna sem sjávarútvegurinn treysti sér til þess að greiða á hverjum tíma. Væri þá miðað við samtímaafkomu vegna þess að þá byðu menn væntanlega í miðað við getu og hagkvæmni viðkomandi útgerðar.

Það sjónarmið að fara þessa leið varð undir í hópnum og þá settu menn sér að skoða hvað væri næstbest. Þá kom upp á borðið þessi samningaleið sem var um það að gera samninga til tilgreinds tíma. Það var ekki samkomulag um tímalengdina og það var ágreiningur um hversu langt tímabilið ætti að vera, en menn töluðu um allt frá tíu árum og upp í 40 ár sem Landssamband íslenskra útvegsmanna vildi fá og vitnaði þar í aðra auðlindanýtingu.

Það var sem sagt ekki ágreiningur um það á þessum tíma. Menn voru á því að við skyldum prófa að fara þessa leið, en þá yrði auðvitað skipt þannig að hluti væri í samningum og hluti í öðrum úthlutunum. Þar var þá rætt um byggðaívilnanir, línuívilnun o.s.frv., ýmis úrræði sem þjónuðu byggðatengdum aðstæðum. Þar var líka rætt um að skerpa það að þeim heimildum sem ekki væru nýttar, þeim heimildum sem féllu til ríkisins á hverjum tíma, yrði úthlutað að nýju í gegnum opinberan markað, ekki í gegnum útgerðina.

Þarna var í raunveruleikanum gerð alvarleg tilraun til þess að ná sáttum. Þeirri tilraun er ekki lokið því að ný ríkisstjórn hefur vitnað í greinargerð starfshópsins og vill byggja framhaldið á niðurstöðunum frá því. Ég tel að það sé í sjálfu sér góður grundvöllur en þá verða menn líka að vera tilbúnir að fylgja meginatriðunum í þeim tillögum og sætta sjónarmið en ekki að tala sig í sundur. Ég tel að ríkisstjórnin hafi með þessu veiðileyfagjaldafrumvarpi stigið skref í ranga átt, í átt sem verði til þess að minnka sáttina í samfélaginu. Það er miður vegna þess að sjávarútvegurinn þarf á öðru að halda.

Það er enn þá merkilegra að skoða þetta hjá hæstv. ríkisstjórn með tilliti til þess sem er að gerast þessa dagana þegar menn eru að tapa verulegum tekjum og sjá fyrir sér útgjaldaaukningu á ýmsum sviðum, hafa metnað til þess að gera ákveðna hluti en hafa ekki fjármagn til þess. Þegar menn byrja á því, miðað við næstu 18 mánuðina, að lækka tekjustofna ríkisins um allt að 12 milljarða verður gatið sem því nemur stærra. Það er auðvitað full ástæða til að hafa áhyggjur af því hvernig menn ætla að standa við loforðin um að búa betur að lífeyrisþegum. Fyrsta skrefið varð afar lítið, miklu minna en maður átti von á miðað við gefin loforð. Menn eru þegar farnir að kveinka sér undan jafnlaunaátaki sem er til þess að eyða kynbundnum launamun sem hefur verið einn af veikustu hlekkjunum í jafnréttisbaráttu okkar. Við vitum öll að það þarf að gefa til baka og bæta fjármagni inn á heilbrigðisstofnanir, inn í löggæsluna o.s.frv. og þá spyr maður sig: Höfum við efni á þessu? Var þetta hópurinn sem þurfti að hjálpa, var þetta hópurinn sem hefur verið í mestum vanda? Við vitum hver afkoman hefur verið á undanförnum árum með gengisbreytingunni sem varð við hrunið.

Það er svolítið forvitnilegt að skoða frá þessari svokölluðu sáttanefnd bókanir frá einstökum flokkum. Meðal annars er bókun frá þáverandi fulltrúa Framsóknarflokksins, núverandi hæstv. ráðherra Gunnari Braga Sveinssyni. Í þeirri bókun er talað um að á einfaldan hátt megi skipta deilum um auðlindina í þrennt og svo er bein tilvitnun, með leyfi forseta:

„1. Hverjir mega nýta auðlindina. 2. Hvernig það er gert. 3. Hversu mikið á að nýta. Deilurnar eru vitanlega flóknari en þetta eru meginlínurnar.“

Svo kemur kafli, með leyfi hæstv. forseta:

„Sú nefnd er nú lýkur störfum hefur reynt að finna leiðir til að jafna þessar deilur og hefur tekist að leggja fram hugmyndir sem nýtast munu til að ná sátt um stærstu deilumálin.“

Svo er kafli um að fyrningarleiðinni hafi verið hafnað og menn hafi horft til samningaleiðarinnar og sæst á að reyna þá leið sem líklegustu leið til sátta.

Svo kemur áfram bein tilvitnun í bókun fulltrúa Framsóknarflokksins, hæstv. núverandi ráðherra Gunnars Braga Sveinssonar:

„Meginatriði samningaleiðarinnar felast því í samningi við rétthafa um afnotarétt af auðlindinni. Þá gerir samningaleiðin jafnframt ráð fyrir að með skýrari hætti sé kveðið á um að auðlindin er sameign þjóðarinnar og tel ég rétt að í stjórnarskrá eigi að setja skýrt ákvæði um þjóðareign.“

Þetta er sérstaklega tekið fram í bókun hæstv. núverandi ráðherra Gunnars Braga Sveinssonar. Við deilum þessari skoðun og það er mjög mikilvægt að við komum auðlindaákvæði inn í stjórnarskrá, högum þannig vinnunni núna að við fáum heimild til þess að ganga til breytinga á stjórnarskrá á þessu kjörtímabili og þetta verði eitt af forgangsmálunum enda ætti ekki að vera um það pólitískur ágreiningur miðað við þessa bókun.

Hv. þingmaður tekur enn fremur fram að hann styðji þá hugmynd að innan aflamarkskerfisins verði tveir pottar, annars vegar innan samningaleiðarinnar og hins vegar byggðakvótar, línuívilnun og fleira í þeim dúr.

Það má sem sagt segja að niðurstaðan hjá hæstv. ráðherra, þáverandi hv. þingmanni í starfshópnum, feli í sér þau þrjú meginatriði sem hann telur upp. Það fyrsta er að það eigi að koma ákvæði um þjóðareign á auðlindum inn í stjórnarskrána, í öðru lagi að það eigi að fara samningaleið um úthlutun nýtingarréttarins og hámarka afrakstur greinarinnar svo hún geti sjálf fjárfest o.s.frv. Í þriðja lagi eiga að gilda svipaðar reglur um auðlindir Íslands, hvort sem um er að ræða sjó, land eða vatn. Hugmyndir sem hafa verið uppi og eru kannski ástæðan fyrir því að meðal annars sá sem hér stendur féllst á að skoða þessa samningaleið til enda eru að hún gæti á margan hátt samrýmst sambærilegum reglum í sambandi við nýtingu á vatni, hita og öðru slíku að svo miklu leyti sem þetta er sambærilegt. Margar af þessum auðlindum þjóðarinnar eru auðvitað eðlisólíkar.

Ég held að við séum öll sammála. Að minnsta kosti tala menn eins og þeir vilji taka afgjald og nýta auðlindina í þágu þjóðar og þess vegna skil ég ekki af hverju menn heykjast á því í þessu frumvarpi.

Meginatriðin eru kannski þau að þegar við horfum yfir þetta sumarþing, það sem við erum búin að vera að gera undanfarnar vikur, allt frá því að fyrstu málin komu inn, höfum við séð forgangsröð sem ég átti ekki von á, forgangsröð sem felst í að lækka skatta á ákveðnum aðilum, útgerðinni í þessu tilfelli og síðan á ferðaþjónustunni sem er okkar meginvaxtargrein og þá eingöngu í gegnum gjald sem átti að leggja fyrst og fremst á erlenda ferðamenn sem nýttu hér gistiaðstöðu.

Á sama tíma kveinka menn sér undan því að standa við loforðin á öðrum sviðum, hvort sem er varðandi skuldavandann, þar sem megnið af því er farið í nefnd, beinu aðgerðirnar sem voru þrjár af tíu, þar er þegar farið í gegn ákvæði um að hraða í gegnum dómskerfið afgreiðslu ágreiningsmála varðandi lánamálin. Ákvæði um heimildir til Hagstofu til að safna upplýsingum um skuldavandann virðist vera að daga uppi, ekki vegna þess að stjórnarandstaðan berjist gegn því eða þvælist á neinn hátt fyrir heldur einfaldlega vegna þess að umsagnir og umræður innan stjórnarflokkanna hafa leitt til þess að þetta mál er ekki jafn einfalt og hæstv. forsætisráðherra gerði ráð fyrir þegar hann lagði frumvarpið fram. Nú hef ég svo sem ekki séð endanlega niðurstöðuna, sit þó í hv. allsherjar- og menntamálanefnd, en það er margt sem bendir til að þetta mál fari ekki í gegn.

Við stöndum sem sagt frammi fyrir því að ljúka kannski þinginu í þessari viku þar sem fleiri spurningar hafa vaknað en svarað hefur verið. Ofan í þetta fáum við svo skýrslu, áfellisdóm yfir fyrrverandi stjórnvöldum fyrst og fremst varðandi stjórn Íbúðalánasjóðs, um mál sem verður rætt í þinginu á morgun og þá verður byrjað að kryfja með hvaða hætti við getum dregið lærdóm af því. Þar eru einmitt gagnrýnd mjög pólitísk afskipti og áhrif í stjórnkerfinu sem er svo eitt af málunum sem við erum að glíma við og kemur hér á dagskrá á eftir þessu máli, stjórn Ríkisútvarpsins. Þar er fullkomlega óskiljanlegt að stjórnarflokkarnir skuli reyna að fara í þá vegferð að auka völd síns flokks, pólitísk völd í stjórn á Ríkisútvarpinu, fjölmiðli í eigu almennings.

Þetta byrjar ekki vel en við skulum vona að fall sé fararheill hvað þetta varðar, að menn finni fjölina sína og komi samfélaginu áfram, ekki veitir af, og þá eflist sáttin og samstaðan. En það verður ekki gert með þeim hætti sem hér hefur verið sýnt og alls ekki með svipuðum hætti og notaður er hér varðandi veiðileyfagjaldið. Við viljum ekki fá aftur gömlu fyrirgreiðslupólitíkina þar sem menn hafa bókstaflega ávinning af því að ganga í ákveðna stjórnmálaflokka til að koma sínum málum fram. Það eru ekki stjórnmál sem við viljum hafa, það eru stjórnmál fortíðarinnar og ég ætla að vona að við drögum þann lærdóm að vera eins fagleg og mögulegt er og draga úr flokkspólitísku valdi, hvort sem er í ákvarðanatöku í tengslum við sjávarútveg, íbúðalánin eða stjórn Ríkisútvarpsins.