142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[21:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Eitthvað hef ég komið við kaunin á mönnum. Sjálfstæðismönnum er tregt að breyta, var sagt, og setja þær reglur sem takmörkuðu mjög framlög fyrirtækja og einstaklinga til stjórnmálaflokka. Ég veit ekki betur en að Sjálfstæðisflokkurinn hafi tekið þátt í þeirri vinnu og Kjartan Gunnarsson, þáverandi framkvæmdastjóri flokksins, hafi einmitt átt þátt í þeim tillögum sem þá komu fram og við höfum unnið eftir síðan.

Það er mikið gert úr því hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að ég sé að gera lítið úr almenningi og þingmönnum. Það er bara til þess að snúa út úr orðum mínum, það er ekkert öðruvísi. Auðvitað er ég ekkert að gera lítið úr fólki enda hef ég sagt, m.a. hér áðan og ég hef sagt það í viðtölum varðandi þá undirskriftasöfnun sem er í gangi, að í henni felist sterk skilaboð frá þeim 35 þús. einstaklingum sem hafa skrifað undir. Þau skilaboð ber alþingismönnum að taka alvarlega. En ég segi og ég stend við það, og þetta á við um alþingismenn, fjölmiðlamenn og almenning, að almennt séð getum við sagt að þessi málaflokkur sé mjög flókinn og það sé erfitt að setja sig inn í hann í smáatriðum. Það stendur eftir og þá er erfitt fyrir fólk að gera sér grein fyrir öllum þeim atriðum. Ég vitnaði til þess áðan að það fólk sem situr í nefndinni og er nýtt á fullt í fangi með að ná utan um það. Er ég eitthvað að gera lítið úr fólki? Nei, ég veit þetta bara af þeim fjölmörgu sem ég tala við. Skilaboðin frá fólki eru alveg skýr og ég misskil þau ekki neitt, ég tek þau alvarlega. Ég er alveg sammála því að það á að innheimta hér veiðigjöld. Hver eiga þau að vera? Þau þurfa auðvitað að vera þannig að greinin beri þau, geti vaxið og dafnað.

Þá komum við að þessu sem gjarnan er orðað svo að fólk sé á móti því að einstaklingar hagnist gríðarlega, taki milljarða út úr greininni, fari með þá burtu og hagnist alveg óskaplega. Er þetta hin almenna mynd í íslenskum sjávarútvegi sem er verið að draga upp, að þetta séu allt saman einhverjir kvótagreifar sem fari með milljarða út úr greininni? Er ekki obbinn af þessu bara vinnandi fólk sem rekur hér lítil og meðalstór fyrirtæki um allt land og hv. þingmenn þekkja vel, fólk sem hefur bara ansi mikið fyrir lífinu? Þetta gengur upp og niður á milli ára og innan ársins, er það ekki?

Auðvitað vitum við að þegar framsalið var sett á á sínum tíma seldu sig margir út úr greininni. Það var markmiðið með því þegar framsalið var sett á og er viðurkennt af sérfræðingum og hagfræðingum í dag að hafi verið eitt brýnasta skrefið að taka í fiskveiðistjórnarmálum. Sjálfstæðisflokkurinn greiddi reyndar atkvæði gegn því máli á þingi. Það mál var afgreitt út í stjórnartíð Framsóknarflokks, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags. Það voru önnur ákvæði í því frumvarpi sem Sjálfstæðisflokkurinn gat ekki sætt sig. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er kannski eini þingmaðurinn hér sem afgreiddi framsalið sem varð til þess að einhverjir einstaklingar ákváðu að selja. Framsalið fékk einhvern verðmiða og sumir ákváðu að fara út úr greininni með allt of mikla peninga. Okkur láðist að grípa til einhverra aðgerða á þeim tíma. Ég álasa ekki neinum, en við breytum þessu ekki aftur í tímann. Ég er ekki að segja að ég hafi séð fyrir að þetta hefði kannski mátt gera með einhverjum öðrum hætti gegnum skattkerfið. Þetta var gert svona. Afleiðingarnar liggja fyrir. Markmiðið var alveg ljóst. Byggðaáhrifin lágu alveg fyrir. Við ætluðum að fækka skipum. Við fækkuðum þeim frá 1991 á næstu 10, 12 árum úr 2.520, ef ég man rétt niður, í 1.150 skip, eitthvað svoleiðis. Sjómönnum fækkaði líka.

En við höfum líka byggt upp hagkvæmasta sjávarútveg í heimi sem þó er með mjög mikla félagslega stoð innbyggða. Við erum enn að bregðast við. Síðast afgreiddum við í síðustu viku lög frá Alþingi þar sem við úthlutuðum svokölluðum byggðastofnunarbyggðakvóta upp á 1.800 tonn til að hjálpa byggðarlögum. Við erum öll samstiga í því og sammála um að við þurfum að standa vaktina í þeim efnum. Það er ekkert öðruvísi.

Þetta um að einstaklingar hagnist gríðarlega — hagnast menn gríðarlega almennt í dag? Það var mikið gert úr því þegar Grandi borgaði háa arðgreiðslu fyrr á þessu ári. Það kom til umræðu í þingsal. Ég man ekki hver þessi upphæð var. (LRM: 1.700.) Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir man það, 1.700 milljónir. En veit hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir hversu mikil ávöxtun það var á eigið fé eigendanna í því fyrirtæki, hversu mikla ársávöxtun þeir fengu eða hafa tekið út úr fyrirtækinu í arðgreiðslur á síðustu árum? Hversu mikla ávöxtun fá þeir á það fé sem þeir hafa lagt í fyrirtækið? Getur hv. þingmaður sagt mér það yfir salinn? (LRM: Þingsköp leyfa það ekki.) Þingsköp leyfa það ekki, hún segir það, en hún mátti nefna 1.700 milljónirnar. Það var allt í lagi, þingsköp leyfðu henni það. (Gripið fram í.) En ég get sagt henni það, og öðrum: Það eru 4%. Er það mikið? (LRM: Er það ekki bara ágætt?) Er það bara ekki ágætt, já? Sættir hv. þingmaður og aðrir sig við það þegar þeir leggja peninga í banka eða kaupa ríkisskuldabréf sem er áhættulaus fjárfesting að fá 4% ávöxtun á áhættufjárfestingu? (LRM: Það er ekkert annað í boði.) Það er ekkert annað í boði, segir hv. þm. Lilja Rafney. Þetta er sagt af miklu innsæi og þekkingu um rekstur almennt.

Vandamálið er að ef sú ávöxtunarkrafa væri þak fjárfesti fólk ekki í atvinnulífi á Íslandi. Á hverju þurfum við mest að halda í dag sem þjóð? Við þurfum á aukinni fjárfestingu að halda í atvinnulífinu. Það er það sem við erum öll sammála um og allir erlendir sérfræðingar sem fjalla um okkar mál. En þá finnst hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur bara gott að það sé þak á 4% ávöxtun á það eigið fé sem menn setja í það og það sé líklegt til árangurs. Það er þessi umræða sem ég er að vitna í þegar ég er að tala um að við verðum að passa okkur.

Er almennt svona mikill hagnaður í sjávarútvegi? Já, hjá nokkrum fyrirtækjum sem ég skildi áðan af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að við sjálfstæðismenn vildum standa alveg sérstaklega vörð um, stóru sjávarútvegsfyrirtækjunum. En hver er staðreyndin í málinu? Ég fór aðeins yfir hana í fyrri ræðu minni, virðulegi forseti. Við erum núna að draga úr álögum í þessu frumvarpi á þessi litlu, meðalstóru og nokkur stór fyrirtæki í bolfiski, en við erum að auka álögurnar gríðarlega á stóru fyrirtækin, stærstu fyrirtækin í greininni sem við eigum að slá alveg sérstaka skjaldborg um, er það ekki, framsóknarmenn og sjálfstæðismenn? Við erum að leggja á þau stórauknar álögur. Við teljum okkur vera að leiðrétta þann mismun sem liggur í þeim lögum sem nú gilda.

Ég fór áðan yfir skiptinguna á milli kjördæma. Einhverjir hafa sagt í mín eyru að það sé engin tilviljun að sum kjördæmi hafi verið svona miklu lægri en önnur í því. Ég læt mér ekki detta í hug að það hafi verið einhver tengsl þar á milli. En það er að minnsta kosti búið að ná einhverjum jöfnuði.

Það þarf tvo til að ná sátt. Það var eiginlega kvatt með því að segja að sjávarútvegurinn og þeir sem tala máli hans séu sérhagsmunagæslumenn stórútgerðanna. Þetta er sá söngur sem ómar eflaust áfram, tekst ekki að eyða þrátt fyrir að hann standist enga skoðun. Eru það ekki Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sem eiga stærstan þátt í því hversu öflug smábátaútgerð er í landinu? Eru það ekki Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sem núna eru að stíga stórt framfaraskref fyrir þá grein til að geta staðist samkeppni, eflt sig (Forseti hringir.) og dafnað í framtíðinni? Það er allt á kostnað (Forseti hringir.) þess sem kallað er „stórútgerðin“ í landinu.