142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[21:48]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sjávarútvegurinn hefur ekki fjárfest neitt í tíu ár — það er náttúrlega ekki alveg rétt, en það er alveg rétt að það var ekki mikil fjárfesting fyrir 2007 í íslenskum sjávarútvegi af því það gekk ekkert vel. Það gekk ekkert vel í íslenskum sjávarútvegi þá, gekk bara illa. Krónan var þannig skráð að það voru miklir erfiðleikar, menn höfðu lítið svigrúm. Það var meira að segja orðið þannig að það tókst varla að manna orðið flotann, fiskiskipin, nema með útlendingum. Fólk vildi ekki fara á sjó af því að launin voru svo lág. Þannig var nú staðan. Svo kom hrunið, hið svokallaða hrun, og krónan veiktist og staðan styrktist. Aflabrögð voru góð. Markaðsverð voru mjög góð. Makríllinn kom sem himnasending. (LRM: Góð ríkisstjórn.)Góðar loðnuvertíðir tvö ár í röð, hafði bara ekkert með þá ríkisstjórn að gera, ekki neitt. (Gripið fram í: Jú, makríll.) Makríllinn var alveg sérstaklega þeirri ríkisstjórn að þakka, geri ég ráð fyrir.

Hvað gerðu menn? Þeir borguðu upp skuldir af því óvissan var svo mikil að þeir fóru ekki í þær nauðsynlegu fjárfestingar sem bíða okkar. Þær munu fara af stað núna.

Þetta á sér allt sínar skýringar. (LRM: Óvissan var …) Var þá fjárfest mikið í óskyldum rekstri? Hv. þm. (LRM: Það vita …) Lilja Rafney Magnúsdóttir veit það vel og það hefur komið ítrekað fram á fundum atvinnuveganefndar að það eru algjör smáatriði sem fyrirtæki í íslenskum sjávarútvegi á heildina litið voru að fjárfesta út fyrir geirann. Það er bara þannig. Það er hægt að telja þau fyrirtæki á fingrum annarrar handar og við skulum ekki láta umræðuna og önnur fyrirtæki líða fyrir það.

Hvort ég sé tilbúinn að fara á opna fundi um allt land, já, að sjálfsögðu. (Forseti hringir.) Ég geri ráð fyrir því, þegar við leggjum fram nýtt frumvarp, (Forseti hringir.) förum yfir okkar hugmyndir, munum við fara og kynna það um allt land (Forseti hringir.) og reyna að vinna því brautargengi.