142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[23:26]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er tvennt sem mig langar til að gera athugasemdir við eða undrast í málflutningi hv. þm. Brynjars Níelssonar. Það fyrra sem kom fram varðar ábyrgð eða ábyrgðarleysi stjórnarmanna eftir því hvort þeir eru tilnefndir af eiganda viðkomandi opinbers fyrirtækis eða faglega tilnefndir, t.d. af samtökum. Ég undrast að heyra hæstaréttarlögmanninn taka svona til orða, eða í hverju liggur munurinn á ábyrgð stjórnarmanns í hlutafélagi eða opinberu hlutafélagi að lögum út frá því hvort hann er tilnefndur af þessum eða hinum? Er það ekki þannig að stjórnarmenn í hlutafélögum bera ábyrgð? Þeir hafa skyldur og lögin ramma það af óháð því hver tilnefndi þá og óháð því hverjir eru í sjálfu sér eigendur að viðkomandi stofnun eða fyrirtæki.

Hv. þingmaður tók beinlínis þannig til orða að ef í stjórn Ríkisútvarpsins sæti fulltrúi tilnefndur af Bandalagi íslenskra listamanna mundi hann aldrei bera ábyrgð á einu eða neinu. Ég held að hv. þingmaður sé þarna aðeins að gleyma tilteknum lögum sem heita lög um hlutafélög því að þau gilda um Ríkisútvarpið að því marki sem það er þá ekki sérstakt sem opinbert hlutafélag. Í öðru lagi finnst manni auðvitað óviðurkvæmilegt að heyra hv. þingmann tala aftur og aftur með þessum hætti, t.d. um formann Bandalags íslenskra listamanna sem er þarna á þess vegum og nafngreina hana og draga fram að hún eigi sér í fyrri störfum pólitískan feril að baki.

Það skýrir auðvitað margt sem kom fram í svari hv. þingmanns við andsvari að hann er nýr í Sjálfstæðisflokknum, hann þekkir ekki sögu flokksins, hann er bláeygur og veit ekkert um það hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hefur umgengist þessa hluti á liðnum tímum. Frægar eru náttúrlega sögurnar, bæði af mannaráðningum þarna inn og af öðrum sem voru hraktir þaðan út. Eru menn búnir að gleyma Hrafni Gunnlaugssyni, Jóhanni Haukssyni? En (Forseti hringir.) hv. þingmaður þarf ekki aftur í söguna. Glænýtt dæmi um það hvernig Sjálfstæðisflokkurinn stendur að málum er skipan (Forseti hringir.) menntamálaráðherra í stjórn LÍN.