142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[23:38]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekkert að tala um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Ég er að tala um hvernig var skipað hér í stjórn RÚV síðast. Eigum við að rifja það upp, hv. þm. Katrín Jakobsdóttir, hvernig skipunin fór fram þar? Ég var að tala um það áðan og þó eru þeir sem skipaðir voru í stjórn RÚV af stjórnarandstöðuflokkunum núna miklu tengdari flokknum en nokkurn tímann þeir sem hæstv. menntamálaráðherra skipaði í stjórn LÍN, ef við eigum að fara að velta því fyrir okkur.

Í pistlinum er ein villa, að vísu tók hv. þm. Árni Þór sömu villuna upp í ræðunni fyrr í kvöld, og hún snýr að því Kolbrún hafi verið tilnefnd í stjórn en hún var tilnefnd í valnefndina. Þetta var einfaldur misskilningur sem hins vegar skiptir engu máli í þessari umræðu. Umræðan snýst um annað. Hún snýst um fyrirkomulagið, hvernig það á að vera. (Forseti hringir.) Af því að þetta er almannafélag og þá eigi að fela einhverjum allt öðrum en stjórnvöldum, sem bera ábyrgðina, (Forseti hringir.) að skipa í stjórnina er bara öfugsnúið. Það skiptir engu máli þótt þetta sé almannaútvarp, það verður hvorki ópólitískara (Forseti hringir.) né faglegra við það.