142. löggjafarþing — 20. fundur,  3. júlí 2013.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

[13:03]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þá skýrslu um Íbúðalánasjóð sem hér er til umfjöllunar og unnin var á grundvelli þingsályktunar sem samþykkt var í desember 2010. Ber að þakka þá miklu vinnu sem lögð hefur verið í gerð skýrslunnar sem er hörð og óvægin að innihaldi.

Niðurstöður skýrslunnar ættu samt ekki að koma okkur sem hér sitjum á óvart en þær eru í samræmi við efni þeirrar rannsóknarskýrslu sem Alþingi lét vinna um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 sem skilað var í apríl 2010. Minnumst því í upphafi þessarar umræðu hvað Alþingi hefur þegar ályktað á grunni skýrslu um fall íslensku bankanna.

Þar sögðum við að skýrslan væri vitnisburður um þróun íslensks efnahagslífs og samfélags undangenginna ára og hún yrði að vera okkur að leiðarljósi í framtíðinni. Þar lögðum við áherslu á að taka gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega og draga af henni lærdóm. Þar sögðum við að niðurstaðan væri áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum, stjórnsýslu, verklagi og skorti á formfestu. Og þar sögðum við að eftirlitsstofnanir hefðu brugðist, að við öll yrðum að horfa gagnrýnum augum á eigin verk og nýta tækifærið sem skýrslan gaf til að bæta samfélagið. Allt þetta tel ég að skýrsla um Íbúðalánasjóð staðfesti og ítreki enn frekar.

Í skýrslunni kemur fram að stjórnsýsluhættir í tengslum við starfsemi Íbúðalánasjóð sem og eftirlit með starfsemi hans hafi verið ófullnægjandi. Um eftirlitið segir meðal annars í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Almennt er meginskýringuna fyrir ófullnægjandi eftirliti að finna í útbreiddu skeytingarleysi í umgengni við eftirlit, skilningsleysi á því hvað gerir eftirlit virkt og trúverðugt og í áhrifum pólitískra ráðninga. Af þessum ástæðum brugðust stofnanir stjórnsýslukerfisins ein af annarri.“

Nánast engin stofnun sem hlut átti að máli er undanskilin gagnrýni; Íbúðalánasjóður, stjórn sjóðsins, ráðuneytið, Seðlabanki Íslands, Fjármálaeftirlitið og Ríkisendurskoðun. Framkvæmdarvaldið, þar með talið eftirlitið, brást. Það höfum við Íslendingar orðið áþreifanlega varir við.

Niðurstöður skýrslunnar verða ekki slitnar úr samhengi við þá staðreynd að hér varð efnahagshrun haustið 2008. Ljóst er að starfsemi Íbúðalánasjóðs fór ekki varhluta af því enda hefur 80% af bókfærðu tapi sjóðsins komið til eftir þann tíma. Þess ber þó að gæta að þegar hefur verið gripið til almennra úrbóta innan íslenskrar stjórnsýslu á síðustu árum í kjölfar efnahagshrunsins. Þar á meðal samþykkti Alþingi í júní 2012 ákveðnar breytingar á hæfisskilyrðum sem sá er gegnir embætti forstjóra Íbúðalánasjóðs þarf að uppfylla sem og stjórnarmenn í stjórn sjóðsins. Þá hafa jafnframt verið samþykkt ný ákvæði um innri endurskoðun sjóðsins, eftirlitskerfi með áhættu sem kveður á um að lög um fjármálafyrirtæki skuli gilda um ársreikning og endurskoðun Íbúðalánasjóðs.

Ljóst er að hlutverk Íbúðalánasjóðs á íslenskum húsnæðislánamarkaði hefur breyst töluvert frá stofnun hans. Framan af var Íbúðalánasjóður einn helsti lánveitandi íbúðafjármögnunar hér á landi en markaðshlutdeild hans hefur dregist saman frá árinu 2004 þegar fjármálastofnanir hófu að bjóða íbúðalán. Afleiðingar þess þekkjum við og eru því gerð ágæt skil í skýrslunni.

Að mínu mati er eitt af því alvarlegasta í þessu samhengi að ekki hafi verið brugðist með fullnægjandi hætti við þeirri uppgreiðsluáhættu sem skapaðist við upptöku íbúðabréfakerfisins 2004. Á það ekki síst við í ljósi þess að uppgreiðsluáhættan raungerðist fljótlega eftir þessar breytingar án þess að nokkuð hafi verið að gert. Á það í raun enn við í dag þó að sjóðurinn hafi ekki gefið út skuldabréf síðan í janúar 2012.

Hæstv. forseti. Við verðum líka að líta til þess tíðaranda sem ríkti á þeim tíma sem þær breytingar sem við gagnrýnum voru gerðar. Þarf ekki nema líta til þeirrar umræðu sem fór fram á Alþingi við meðferð frumvarpsins, sem samþykkt var í þessum sal fyrir rétt rúmum níu árum mótatkvæðalaust. Þingmenn í stjórnarandstöðu fögnuðu þeim breytingum og sama átti við um samtök launafólks og töluðu báðir gegn gjaldi á uppgreiðslu lántaka sjóðsins. Beðið var með óþreyju eftir að veðhlutföll yrðu hækkuð úr 65% í 90% og hámarkslánsfjárhæð hækkuð í 18 millj. kr. úr 9 millj. kr. Það er auðvelt að vita betur í dag. Það er erfiðara að líta um öxl og viðurkenna að stjórnmálamennirnir á Alþingi brugðust líka.

Sumir segja að Íbúðalánasjóður hafi á þessum árum misst sjónar á því félagslega hlutverki sínu að auka möguleika fólks til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Í stað þess að draga úr umsvifum á markaði fyrir fjármögnun fasteignaviðskipta þegar einkaaðilar höfðu mætt til leiks hafi starfsemi hans í síauknum mæli tekið á sig mynd fjármálafyrirtækis á húsnæðislánamarkaði í beinni samkeppni við einkafyrirtæki.

Í þessu sambandi má nefna að fram kemur að Íbúðalánasjóður lánaði lögaðilum um fimmtung af öllum lánveitingum sjóðsins á tímabilinu 1999–2012. Mestu tapaði sjóðurinn á lánum til leigufélaga en mikið fé var lánað til þeirra eftir að átak til fjölgunar leiguíbúða hófst árið 2001. Vekur athygli að svo fór að starfsmenn sjóðsins lýstu áhyggjum sínum í minnisblöðum þegar árið 2003 að markmið með þessum lánum hefði verið að leysa vandamál leigjenda en framkvæmdin hefði snúist um að leysa vandamál á byggingarmarkaði. Flest árin var einkum lánað til sveitarfélaga og félagasamtaka en þau tvö þegar mest var lánað, 2007 og 2008, virðist aðallega hafa verið lánað til leigufélaga í einkaeigu. Á tímabilinu 2006–2008 fór sjóðurinn jafnframt ekki fram á bankaábyrgðir hjá byggingaverktökum af ótta við að missa viðskipti yfir til bankanna en sjóðurinn tapaði miklu fé á þeim lánum í kjölfar hrunsins. Á móti kemur að erfitt er að taka undir þegar menn segja að Íbúðalánasjóður hefði átt að láta sig hverfa þegar bankarnir hófu að lána til íbúðarkaupa. Má þar til dæmis benda á að bankarnir lánuðu nær eingöngu til húsnæðiskaupa á stærstu þéttbýlissvæðum landsins og sjóðurinn hafði því mikilvægu hlutverki að gegna utan þeirra.

Virðulegi forseti. Við síðustu lagabreytingar sem gerðar voru á starfsumhverfi Íbúðalánasjóðs sumarið 2012 var félagslegt hlutverk hans við að veita þjónustu í almannaþágu undirstrikað. Þær breytingar helstar voru að heimildir sjóðsins til að lána til endurbóta, byggingar eða kaupa á íbúðarhúsnæði voru takmarkaðar við einstaklinga og leigufélög sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni. Áður, eins og komið hefur fram, var sjóðnum heimilt að lána til félaga, þar á meðal byggingaverktaka, sem voru rekin í hagnaðarskyni. Þóttu lánveitingar til félaga sem rekin voru í hagnaðarskyni frekar vera verkefni fjármálafyrirtækja en Íbúðalánasjóðs. Þá voru ýmsar takmarkanir settar á lánveitingar í því skyni að Íbúðalánasjóður hefði eingöngu heimildir til að lána vegna kaupa á íbúðarhúsnæði að verðmæti sem þykir rúmast innan félagslegra markmiða sjóðsins og þá einnig til að tryggja að sjóðurinn raski ekki samkeppni á íslenskum húsnæðislánamarkaði.

Síðast en ekki síst vil ég vekja athygli þingmanna á því að eitt af þeim verkefnum sem koma fram í þeirri þingsályktun sem við samþykktum síðastliðinn föstudag felur í sér að skipuð verði verkefnisstjórn um framtíðarskipulag húsnæðismála. Er það í samræmi við efni þingsályktunar sem skýrsla sú sem hér er til umræðu byggist á en þar segir, með leyfi forseta:

„Í kjölfar rannsóknar fari fram heildarendurskoðun á stefnu og starfsemi Íbúðalánasjóðs og fjármögnun húsnæðislánakerfisins á Íslandi.“

Í mínum huga verður verkefni þeirrar verkefnisstjórnar einkum tvíþætt. Annars vegar að leggja fram tillögur um hvaða fyrirkomulag á fjármögnun almennra húsnæðislána á íslenskum húsnæðismarkaði sé hagkvæmast og hvernig slíku fyrirkomulagi verði komið á, hins vegar að leggja fram tillögur um með hvaða hætti stjórnvöld geti sinnt afmörkuðu hlutverki sem felst í veitingu þjónustu í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði. Get ég ekki betur séð en þetta sé í samræmi við það sem rannsóknarnefndin leggur til í kafla skýrslunnar um húsnæðisstefnu til framtíðar.

Ég tel þó mikilvægast í þessu samhengi að sem breiðust sátt og samstaða náist um skipulag íslensks húsnæðiskerfis. Ég mun því leggja ríka áherslu á að sem flestir komi að endurskipulagningu húsnæðiskerfisins og mun því á næstunni óska tilnefninga í samvinnuhóp sem mun hafa það hlutverk að vera framangreindri verkefnisstjórn til ráðgjafar. Þar mun ég meðal annars leita eftir tilnefningu frá þingflokkum þeirra flokka sem sitja á Alþingi. Vonandi berum við gæfu til að koma á fyrirkomulagi sem reynist okkur farsælt til framtíðar þannig að hvorki við né komandi kynslóðir eigi eftir að standa í okkar sporum núna.

Ég er jafnframt ekki í vafa um að sú vinna sem við höfum hér fyrir framan okkur muni nýtast okkur í þeirri stefnumótun í húsnæðismálum sem fram undan er en áætlað er að þeirri vinnu verði lokið í ársbyrjun 2014.