142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[21:06]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í tilefni af síðustu orðum hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar verð ég að geta þess að vissulega gældum við við þá hugsun á hverju einasta ári meðan síðasta ríkisstjórn sat að völdum að efnt yrði til kosninga fyrr en vorið 2013. Okkur sýndist ástandið á stjórnarheimilinu vera með þeim hætti að til kosninga gæti dregið hvenær sem væri. Burt séð frá því vildi ég aðeins nefna að þegar við lögðum áherslu á það í þingskapanefnd á sínum tíma, 2011 og 2012, að þeirri breytingu yrði komið á að tekjuöflunarfrumvörp yrðu lögð fram samhliða fjárlagafrumvarpi og þeim þar með flýtt um þó nokkrar vikur, átta, níu vikur miðað við það sem verið hafði í framkvæmd, gerðum við ráð fyrir því í upphafi að sú breyting tæki gildi um leið og önnur ákvæði þingskapalaganna.

Fyrir þrábeiðni fulltrúa þáverandi ríkisstjórnarflokka í þingskapanefnd var þessu hins vegar frestað fram á árið 2013. Okkar eindregni vilji stóð til þess að þessi breyting tæki gildi þegar í stað en til þess að ná samkomulagi um þessa breytingu á þingsköpum vorum við til í að ganga til móts við þáverandi ríkisstjórnarflokka og þáverandi meiri hluta og sýna samkomulagsvilja með því að fresta þessu. (Gripið fram í.)

Núna fórum við fram á (Gripið fram í.) það að núverandi stjórnarandstöðuflokkar sýndu sambærilegan samstarfsvilja við það að fresta því lítillega að þessi breyting tæki að fullu gildi. Ég bendi þó enn á að gangi þetta frumvarp fram með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir og verði niðurstaðan í samræmi við það verður fjárlagafrumvarpið að sönnu þremur vikum seinna á ferðinni en ella hefði orðið og tekjuöflunarfrumvörpin verða þar af leiðandi líka þremur vikum seinna á ferðinni en ella hefði orðið að óbreyttum lögum. Þar er þó um að ræða framför frá því í fyrra, frá því í hittiðfyrra og frá því þar áður (Gripið fram í: Ekki satt.) vegna þess að skattafrumvörp fyrrverandi ríkisstjórnar og reyndar margra fyrri ríkisstjórna (Gripið fram í: … núllar sig út.) hafa að jafnaði komið fram afar seint, oft í lok nóvember eða í byrjun desember eins og hv. þingmenn þekkja.

Ef við reynum að horfa á þetta jákvæðum augum og horfa frekar á það sem við getum verið sammála um en það sem við erum ósammála um ættum við þó að fagna því að gangi ákvæði þessa frumvarps fram með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir verða þingmenn í miklu betri færum til þess að fara yfir fjárlagafrumvarpið og, það sem skiptir þó meira máli, tekjuöflunarfrumvörp núna í haust en nokkurn tímann áður.