142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[21:12]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara í miklar þrætur við hv. þm. Helga Hjörvar um þessi atriði. Ég verð þó að geta þess að ég átta mig ekki alveg á því samhengi hlutanna að vegna hruns bankakerfisins og efnahagslegs áfalls sem við urðum sannarlega fyrir haustið 2008 hafi fjármálaráðherra ekki getað lagt fram frumvörp á skikkanlegum tíma haustið 2012 eða haustið 2011. Það var ekkert í samhengi við þetta bankahrun sem olli því að tekjuöflunarfrumvörp hæstvirtra fjármálaráðherra Samfylkingarinnar, Oddnýjar Harðardóttur og Katrínar Júlíusdóttur, komu fram allt of seint miðað við áform sem uppi voru. Það er ekki hægt að búa til það samhengi að hið óvænta og hörmulega áfall sem við urðum fyrir haustið 2008 ylli þeim töfum sem við sáum hér á síðasta þingi eða þinginu þar áður. Það er ekkert orsakasamhengi þar á milli.

En það er ekki það sem skiptir máli. Það sem ég legg áherslu á í þessu við hv. þm. Helga Hjörvar eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson er það að þrátt fyrir að sú framför sem við erum sammála um að beri að stefna að komi ekki fram jafn hratt og djarflega og við gerðum okkur kannski væntingar um verður niðurstaðan engu að síður gríðarleg framför frá því sem verið hefur í tíð fyrri ríkisstjórnar og enn þá eldri ríkisstjórna.