142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Í 71. gr. stjórnarskrár Íslands segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Það sama á við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum …“

Engin slík lagaheimild er fyrir hendi sem heimilar bandarískum stjórnvöldum persónunjósnir á íslenskum borgurum en upplýst hefur verið að þeir hafa ástundað slíka njósnastarfsemi. Ég nefni í því samhengi að þingmenn úr mörgum stjórnmálaflokkum hafa vakið máls á þessu. Úr stjórnarmeirihlutanum nefni ég hv. þm. Pétur H. Blöndal og ég nefni hæstv. utanríkisráðherra Gunnar Braga Sveinsson sem hefur lýst áhyggjum vegna njósna Bandaríkjanna á íslenskum þegnum. Þannig hef ég skilið fréttaflutning af ummælum hans. Sá sem upplýsti heimsbyggðina, og þar með Íslendinga, um persónunjósnir Bandaríkjanna er Edward Snowden. Hann er nú hundeltur og á hvergi höfði sínu að halla. Ég hef áður beint því til Alþingis, þar á meðal sérstaklega til allsherjarnefndar þingsins, að taka málið upp og hafa forgöngu um að Íslendingar veiti Edward Snowden landvist á Íslandi.

Nú leyfi ég mér að spyrja hv. formann nefndarinnar, Unni Brá Konráðsdóttur, hvort nefndin hafi tekið þetta upp og hvort hún og allsherjarnefnd Alþingis muni beita sér fyrir því að Edward Snowden verði boðin landvist á Íslandi.