142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

störf þingsins.

[10:45]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég hyggst ræða um störf þingsins. Nú á þessum síðasta degi sumarþings er mér algerlega hulin ráðgáta til hvers stjórnarmeirihlutinn hefur efnt til þessa þinghalds hér vikum saman. Það eina að marki sem hefur komið út úr því þinghaldi er 10 milljarða lækkun til útgerðarmanna sem hefði allt eins mátt framkvæma í september. (Gripið fram í.) Ég held að það sé full ástæða fyrir stjórnarmeirihlutann að íhuga vel hversu óhönduglega hefur tekist til hér á fyrstu vikunum og hversu illa ígrundað, illa undirbúið og til lítils árangurs þetta starf hefur allt verið.

Steininn tók þó úr í morgun á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þegar lagt var fram í nefndinni frumvarp hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnar Íslands um breytingu á sjálfum samkomudegi þjóðþingsins, þegar þingmenn stjórnarliðsins tilkynntu að frumvarpið sem var lagt fram í gær samræmdist ekki stjórnarskránni og þeir yrðu þess vegna að gera breytingartillögu við frumvarp hæstv. forsætisráðherra svo það samræmdist stjórnarskránni. Frumvarpið sem er flutt hér með meirihlutaofbeldi gegn vilja hluta þingsins breytir leikreglunum í þinginu af hálfu framkvæmdarvaldsins og var tekið inn með afbrigðum í gær.

Ég hvet þingmenn stjórnarliðsins, sérstaklega þá nýju, til að lesa skýrslu þingmannanefndarinnar og ályktun hennar sem var samþykkt með 63 atkvæðum gegn engu um að hér yrði að draga úr ráðherraræði, úr meirihlutaræði, hér yrði að auka sjálfstæði þingsins og gæta að vönduðum vinnubrögðum.

Virðulegur forseti. Ég auglýsi eftir lagaskrifstofu Alþingis sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir talaði fyrir, (Forseti hringir.) eða ætla menn kannski að fela Brynjari Níelssyni (Forseti hringir.) að gæta þess að frumvörp hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) samræmist stjórnarskrá?