142. löggjafarþing — 24. fundur,  5. júlí 2013.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins.

[00:53]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið lýsti hv. formaður allsherjar- og menntamálanefndar því yfir að hér í þinginu væri samkomulag um að allir þingflokkar ættu að eiga a.m.k. einn fulltrúa í stjórn Ríkisútvarpsins, stjórnin fimm og minni hlutinn fjóra. Það var að höfðu samráði við formenn þingflokka. Það samkomulag hefur nú verið svikið. Það er ekki við hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur að sakast. Hún er orðheldin og raungóð í samstarfi í þinginu. Það er hæstv. forsætisráðherra sem hefur lagst svo lágt að svíkja samninginn og gera þingmenn stjórnarliðsins ómerka að orðum sínum í ræðustól Alþingis.

Ég vek athygli þingmanna á því að þessi kosning er leynileg og það er í höndum hvers og eins stjórnarliða hvort ráðherraræðið gildir eða hvort þingmenn ætla að standa að baki forustu sinni hér í þinginu, því að greiði einn stjórnarliði í leynilegri kosningu atkvæði með okkur í minni hlutanum þá heldur samkomulagið og þá standa orð formanns allsherjar- og menntamálanefndar í ræðustól Alþingis. Það þarf bara kjark eins manns í (Forseti hringir.) leynilegri atkvæðagreiðslu.