142. löggjafarþing — 25. fundur,  10. sept. 2013.

störf ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:40]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka á köflum ágæta umræðu og lengst af fremur hófstillta og þakka árnaðaróskir frá síðasta ræðumanni. Það var svo sem ekki við því að búast að ný stjórnarandstaða mundi byrja á því á fyrsta degi að lofsyngja nýja ríkisstjórn og afrek hennar, við verðum að gefa því einhvern tíma enn. Það hefði þó verið ágætt ef nýja stjórnarandstaðan hefði kynnt til sögunnar eigin hugmyndir um hvað hún vildi gera. Í staðinn virtust flestar ræðurnar eða margar þeirra a.m.k. byggja á hugmyndafræðilegri umvöndun og orðræðu sem minnti helst á orðræðu Alþýðubandalagsins seint á sjöunda áratugnum. Áhugamenn um stjórnmálasögu geta haft gaman af slíku og ekkert að því ef þetta er trúin að menn geri grein fyrir henni hér, en ef okkur er alvara um að vilja vinna meira saman og leita lausna hvaðan sem þær koma þurfa menn líka að vera ófeimnir við að finna nýjar lausnir í stað þess að hengja sig í gamla pólitíska frasa.

Það sem mér þótti þó verst var sú tilhneiging sem hefur aðeins gert vart við sig upp á síðkastið hjá nýju stjórnarandstöðunni að skálda upp hvað nýja ríkisstjórnin ætli að gera og hvað fulltrúar stjórnarmeirihlutans hafi sagt eða vilji gera. Því var haldið fram hér að til stæði að veikja Samkeppniseftirlitið og Fjármálaeftirlitið. Til sögunnar hafa verið kynnt alls konar niðurskurðaráform sem stjórnarliðar kannast ekkert við. Því var meira að segja haldið fram að til stæði að einkavæða heilbrigðiskerfið. Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs, hélt því fram að flestir hefðu átt von á að fá ávísun í pósti daginn eftir kosningar. Þetta er umræða sem við heyrðum aðeins fyrst eftir kosningarnar og ég hélt að menn væru hættir að reyna að halda fram. Að öðru leyti var ég þó nokkuð sáttur við málflutning hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur. Hún féll reyndar aðeins í sömu gryfju og hv. þm. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, að gera tiltölulega lítið úr gömlu undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar. Hv. formaður Samfylkingarinnar talaði um að Ísland mætti ekki verða einhvers konar verstöð sem byggði á þeim greinum.

Ég hugsa að fáir flokksformenn t.d. í Ástralíu mundu leyfa sér að tala þannig um Ástralíu að hún væri einhvers konar verstöð vegna þess að stoðir atvinnulífsins þar byggi á útflutningi hráefnis að nokkru leyti. Ég er þó sammála hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur og fleirum sem nefndu sérstaklega mikilvægi þess að atvinnulíf hér yrði fjölbreytilegra. Þar meðal annars og ekki hvað síst koma undirstöðuatvinnugreinarnar að gagni, því að upp úr þeim sprettur oft sú nýsköpun sem nær mestum árangri, eins og við höfum auðvitað fjölmörg dæmi um á Íslandi.

Hvað varðar almennar áhyggjur af niðurskurði er svolítið sérstakt að heyra þessar miklu áhyggjur núna eftir að síðasta ríkisstjórn hélt ár eftir ár áfram að skera niður, ekki hvað síst í heilbrigðiskerfinu. Ég er hins vegar sammála því að þegar kemur að niðurskurði verða menn að fara varlega, sérstaklega hvað varðar heilbrigðis- og velferðarkerfið. Ekki stendur til neitt annað en að passa sérstaklega upp á það.

Það viðhorf sem birtist hér til skattlagningar er hins vegar mjög sérkennilegt og útgangspunkturinn virðist vera sá að öll skattlagning sem er undir 100% sé sérstök gjöf frá ríkinu til þeirra sem borga minna en 100% skatt. (Gripið fram í.) Þetta kom berlega í ljós í umræðunni um skattlagningu á ferðaþjónustu. Nokkrir hv. þingmenn töluðu um að ný ríkisstjórn væri að gefa fólki sem starfar í ferðaþjónustu peninga með því að ráðast ekki í þær skattahækkanir sem síðasta ríkisstjórn hafði fundið upp á.

Nú síðast í morgun var verið að ræða þessi mál á gríðarstórri ráðstefnu í Hörpu þar sem kynntar voru niðurstöður Boston Consulting Group vegna rannsókna þeirra á íslenskri ferðaþjónustu. Þar var sérstaklega mælt gegn því að menn réðust í slíka skattlagningu vegna þess að hún fældi frá ferðamennina. Ef þeir kæmu ekki til landsins þá í fyrsta lagi keyptu þeir enga gistingu en þeir færu ekki heldur á veitingastaði eða í skoðunarferðir eða gerðu annað sem skilar tekjum til ríkisins. Þar voru lagðar til skynsamlegri leiðir til að ná inn tekjum af ferðamönnum og standa undir nauðsynlegri uppbyggingu í ferðaþjónustu. Reyndar hafði einn hv. fyrrverandi fjármálaráðherra gert sér grein fyrir þessu fyrir síðustu kosningar. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir hafði lýst því yfir að áform um skattahækkun á gistingu væru ekki skynsamleg. En sú yfirlýsing eins og margar aðrar sem núverandi stjórnarandstaða gaf rétt fyrir kosningar virðist gleymd nú.

Hvað varðar þróun efnahagsmála almennt höfum við ástæðu til að vera, eins og nokkrir stjórnarandstæðingar bentu á, þar með talið hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, bjartsýn og bjartsýnni en margar Evrópuþjóðir aðrar. En það er háð því að við nýtum þau tækifæri sem hér eru til staðar og gefum meðal annars atvinnurekendum tækifæri til að nýta þau tækifæri. Að sjálfsögðu þarf hið opinbera að nýta þau tækifæri sem blasa við því en við þurfum líka að gefa öðrum frelsi til þess, meira en var á síðasta kjörtímabili eins og sú stöðnun sem við horfðum upp á þá sýndi því miður.

Reyndar voru nefndar nokkrar skyndilausnir eins og að taka hagnað eða tekjur ríkisins af fjármálafyrirtækjum og nota í eitt og annað. En þar gleymist eins og hefur iðulega gleymst í þessari umræðu að það fjármagn sem ríkið setti inn í bankana var tekið að láni. Gríðarlega háar upphæðir voru teknar að láni og þau lán þarf að endurgreiða með vöxtum og þess vegna þarf illu heilli að nota það fjármagn til þess.

Hv. þm. Kristján L. Möller minnti á, eins og fleiri hafa reyndar gert, mikilvægi samstarfs og samráðs. Ég get ekki annað en tekið undir margt í málflutningi hv. þingmanns. Það skýtur reyndar svolítið skökku við að svo skuli nokkrir hv. þingmenn koma hér og nánast heimta að ríkisstjórnin klári öll mál meðan þingið er í sumarleyfi. Að sjálfsögðu verður ríkisstjórnin að leita til þingsins og vinna málin með þinginu og þar vona ég að fulltrúar sem flestra flokka komi að. Það má læra margt af mistökum síðasta kjörtímabils þegar kemur að samráði, það er hárrétt hjá hv. þm. Kristjáni L. Möller.

Almennt vona ég að flestir í þinginu og í samfélaginu öllu verði sem glaðastir á þessu kjörtímabili og ég mun leitast við að sú geti orðið raunin. Ef aukið samráð og samstarf má verða til þess og vonandi að við skilum hér betri vinnu mun ég ekki láta mitt eftir liggja í því.