142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:30]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurninguna. Þetta er spurning sem við hefðum jafnvel átt að spyrja okkur að strax í vor þótt ég geri mér grein fyrir því að aðstæður hafi kannski ekki endilega leyft það. Það er alltaf hægt að leiðrétta mistök, er það ekki?

Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir spyr hvað hafi ekki verið bent á. Ja, það er til dæmis sú leið að leita að upplýstu samþykki þeirra sem taka þátt í þessari gagnasöfnun. Eitt af vandamálunum við frumvarpið er það að markmiðið er í það minnsta tvíþætt, annars vegar það að afla upplýsinga um skuldara til að hjálpa þeim að leysa sín vandamál og hins vegar almennt til hagskýrslugerðar til að yfirvöld viti hvað þau eru að gera í stuttu máli. Bæði markmiðin eru mjög göfug en það eru mismunandi aðferðir sem samkvæmt stjórnarskrá er leyfilegt að fara. Ef við ætlum að leysa þann vanda að hagskýrslurnar okkar séu ekki nógu skýrar ættum við í raun ekki einu sinni að tala um persónugreinanleg gögn til að byrja með. Þau koma inn í málið þegar við förum að tala um skuldavanda heimilanna og þá neyð sem krefst þess að við söfnum umræddum upplýsingum. Hér eru því í raun tvö upplýsingasöfnunarmál í einum pakka.

Þegar kemur að skattframtölunum — ég hef það nú bara eftir nefndum um lækkun á höfuðstól húsnæðislána að skattframtölin nægi plús einhverjar upplýsingar aðrar sem þær hafi. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti það en það er bara eitt dæmi um að við vitum ekki einu sinni nákvæmlega hvaða upplýsingar við viljum til að leysa nákvæmlega hvaða markmið — en ég hef það eftir þeirri nefnd.