142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:32]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því eins og margir aðrir sem sitja í þessari nefnd að þakka það starf sem hefur farið fram í vor og svo núna eftir að við byrjuðum aftur. Þetta er búið að vera virkilega fróðlegt og gott. Það er gott samstarf og góður andi í nefndinni. Fyrir mig sem hef unnið í fiski nánast alla ævi er eins og að vera í háskóla að sitja í þessari nefnd. Það hefur verið gríðarlegur skóli að reyna að setja sig inn í mál, ekki síst út af því að þetta er mikill lagatæknilegur texti og mjög erfitt fyrir svo óreyndan mann eins og mig í þessum málum að setja mig inn í þau.

Það sem mér finnst aðalmálið í þessu er allur sá fjöldi sem kom til okkar og talaði við okkur. Ég spurði ekki mikið í þessari nefnd einfaldlega vegna þess að ég kunni það ekki almennilega. Ég hlustaði meira og ég reyndi að hlusta vel á það sem sagt var. Það kom mjög oft fram og eiginlega alltaf að þetta frumvarp bryti í bága við friðhelgi einkalífsins, það gengi gegn 71. gr. stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmálanum. Það er verið að ganga alla leið. Ég velti því fyrir mér: Er þetta það sem við viljum? Er það það sem við viljum nú, að ríkið geti haft allar upplýsingar um okkur, þær liggi á einhverjum einum stað, allar upplýsingar um mín fjármál eða fjármál allra á Íslandi? Það finnst mér óhugnanleg tilhugsun.

Ég get vel skilið að það þurfi að leita allra leiða til að bæta skuldastöðu heimila í landinu. Ég hef til dæmis margoft sagt það áður að ef ég hefði ekki verið að brölta í pólitík sjálfur hefði ég kosið Framsóknarflokkinn [Hlátur í þingsal.] vegna þess að það voru svo rosalega öflug loforð sem voru gefin. Ég hef sjálfur fundið það á eigin skinni hvað þessi stökkbreyttu lán hafa haft gríðarleg áhrif á minn fjárhag og mitt heimili. Ég vil leggja mig allan fram við að hjálpa ríkisstjórninni að leysa þennan vanda.

Það kom líka fram, eins og hefur komið fram hér áður, að meðal þeirra sem komu til okkar í nefndinni var þessi starfshópur um skuldavanda heimilanna. Þeir sögðu að þeir þyrftu ekkert á þessum upplýsingum að halda til að leiðrétta skuldir heimilanna. Það kom skýrt fram. Ég hélt í einfeldni minni að forsendan fyrir því að hægt væri að ráðast í þennan skuldavanda væru þessar upplýsingar, en þá kom bara í ljós að svo er ekki. Þá spyr maður sig: Til hvers þarf þetta?

Ég hef líka heyrt haft eftir ríkisskattstjóra að allar upplýsingar sem þessi nefnd þarf að hafa liggi fyrir. Þess vegna velti ég fyrir mér: Af hverju erum við að þessu?

Ég vil vitna í einn nefndarmann sem kom inn sem varamaður. Hann er lögfræðingur sem ég ber mikla virðingu fyrir, virtur í samfélaginu. Ég er ekki alltaf sammála honum en hann er virtur. Hann spurði Persónuvernd: Hvar endar þetta? Svarið var: Þetta endar hvergi. Við erum alltaf að ganga lengra og lengra inn á réttindi hvers og eins. Það er óhuggulegt.

Ég er tiltölulega nýr í stjórnmálum og á margt eftir ólært, það er alveg ljóst, en ég hef fylgst með því í gegnum tíðina að einn flokkur á Íslandi hefur alltaf varið persónurétt framar öllum öðrum. Við getum nefnt til dæmis skattskýrslurnar sem liggja fyrir augum allra. Flokksmenn hafa barist gegn því og þeir hafa barist fyrir eignarréttinum. Þetta er Sjálfstæðisflokkurinn. Ég mundi telja það stórpólitísk tíðindi ef sjálfstæðismenn samþykktu þetta frumvarp. Ég held að það hlytu að vera ein stærstu pólitísku tíðindi sem um getur í Íslandssögunni.

Ég tel, og það kemur fram í minnihlutaáliti okkar, að við getum komist að niðurstöðu um eitthvað vægara. Eins og ég hef margoft sagt er ég ekki lögfróður maður en meðalhófsreglan segir okkur að það má ekki fara þessa leið ef hægt er að beita vægari úrræðum. Ég er ekki alveg klár á því hver þau eru en ég held að hægt sé að komast að því hver þau eiga að vera með víðtækara starfi af því að þetta á ekki að nýtast í haust þegar tillögur eiga að liggja fyrir um skuldavanda heimilanna. Mér finnst þetta svona stórabróðurfrumvarp. Það er gengið alveg alla leið.

Það kom til dæmis líka fram hjá hagstofufólkinu sem kom fyrir nefndina að það ætti að nýta þessar upplýsingar — markmiðið er búið að vera svolítið á reiki — til að stjórnvöld gætu gripið inn í tímanlega og farið í aðgerðir ef stefndi í einhverja slæma átt. Þeir geta fylgst með öllum og ef hagkerfið fer eitthvað að titra eða efnahagurinn þá verður að grípa inn í. Það er nú eitt. Ég fylgdist með og las blöð allan síðasta áratug og á árunum fyrir hrun þá kom fram hver sérfræðingurinn á fætur öðrum, hagfræðingar, skammstafanir í útlöndum, sem vöruðu Íslendinga við því sem var að gerast hérna en það var ekkert hlustað á þá. Stjórnvöld tóku ekki mark á einni einustu aðvörun. Ég held að það sé kannski það sem við þurfum aðallega að gera á þessu þingi, að læra af þeirri reynslu sem við höfum upplifað á síðustu árum og taka mark á því fólki og þeim sem eru um allan heim að vara stjórnvöld við yfirvofandi hættu. Það er bara þannig.

Eins og ég segi þá get ég ekki samþykkt þetta frumvarp vegna þess að mér finnst það ganga allt of langt. Þrátt fyrir ágætisbreytingar sem voru gerðar á því til að mæta kröfum Persónuverndar þá er alltaf ljóst að þeir hjá Persónuvernd samþykkja þetta aldrei. Það kom líka fram. Sumir sögðu að þeir mundu aldrei samþykkja eitt eða neitt, þeir væru í eðli sínu á móti. Þeir eru náttúrlega á móti þessu vegna þess að það er verið að ganga alla leið. Það er verið að ganga algerlega á stjórnarskrárbundinn rétt okkar. Ég get því miður ekki greitt atkvæði með þessu, en ég er allur af vilja gerður að hjálpa núverandi stjórnvöldum að taka á skuldavanda heimilanna. Hvort það verður heimsmet eða eitthvað, það veit ég ekki. [Hlátur í þingsal.] Ég vona bara að við getum öll verið sammála um að þetta eru göfug markmið. Ég styð ríkisstjórnina heils hugar í því að takast á við þennan vanda og mun leggja mig allan fram um það þrátt fyrir að ég sé í stjórnarandstöðu. Ég lít samt ekki þannig á það, ég er minnihlutamaður. Ég styð öll góð mál. Skuldavandinn er mál okkar Íslendinga allra en ég held að þetta sé ekkert endilega til þess fallið að bæta eitthvað, þ.e. annað en það að þeir fá allar upplýsingar um okkur og það vil ég ekki.