142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[14:13]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Fram hefur komið í umræðu um efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar í þágu skuldsettra heimila að höfuðstólshópurinn svokallaði mun skila tillögum í nóvember um það hvernig eigi að vinna að lækkun höfuðstóls húsnæðisskulda.

Fram kemur hins vegar í þessu máli hér að þau gögn sem þetta mál snýst um að heimila Hagstofunni að afla, safna, muni liggja fyrir í mars eða apríl. Það er því einsýnt að þau gögn sem Hagstofan kemur til með að hafa með höndum verða ekki fyrir hendi þegar höfuðstólshópurinn skilar sínum tillögum í nóvember.

Hv. þingmaður áréttar í ræðu sinni og síðan í andsvörum að hann vilji vita hver staðan sé áður en hann fari í aðgerðir. Þá vil ég spyrja hann um það hvernig þessi árekstur í dagatalinu, ef svo má að orði komast, samrýmist þeim göfugu markmiðum þingmannsins að hann vilji hafa sem ríkastar upplýsingar áður en farið er í aðgerðir og því að hafa stutt þau markmið ríkisstjórnarinnar að plön um höfuðstólslækkun liggi fyrir þegar í nóvember án þess að þessi gögn séu fyrir hendi.