142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

staðan á leigumarkaðinum.

[15:58]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Mig langar að ræða stöðuna sem uppi er á húsnæðismarkaðnum. Staðan er sú að margir þeirra sem nú eru að koma inn á markaðinn geta ekki keypt og ástæðan er meðal annars sú að þá vantar eigið fé til að fjármagna kaupin. Þessi hópur leitar því nú út á leigumarkaðinn en vandamálið þar er óörugg búseta og há leiga.

Leiguverð hefur hækkað mikið á undanförnum árum og stafar hækkunin meðal annars af mikilli eftirspurn á leigumarkaði og mikilli hækkun lána er hvíla á þeim eignum sem nú eru í leigu.

Stór hluti ráðstöfunartekna fólks fer í að greiða leigu og því miður er það raunin að margar fjölskyldur hafa misst leiguíbúðir þar sem leigan var orðin of há.

Þessi þróun hefur orðið til þess að unga fólkið býr lengur heima en áður og nokkur dæmi eru um að stórfjölskyldur séu farnar að búa saman til þess eins að ná endum saman.

Það sem einnig er að gerast er að við erum að missa fjölskyldur úr landi, fjölskyldur sem hafa gefist upp á ástandinu, meðal annars á húsnæðismarkaðnum. Vert er að geta þess að þetta ástand hefur verið að vinda upp á sig árum saman og við því verður að bregðast.

Það er hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra Eygló Harðardóttir sem hefur umsjón með þessum málaflokki og því vil ég spyrja hana eftirfarandi spurninga:

1. Hvaða hugmyndir hefur hún til að bæta stöðu þeirra sem eru á leigumarkaðinum?

2. Hvaða leiðir sér hún færar í því að búa til varanlegt og öruggt húsnæðiskerfi á leigumarkaðinum?

3. Við erum með ákveðinn hóp af fólki sem nú þegar leigir af Íbúðalánasjóði sem hefur misst eignir á uppboði, þetta eru tímabundnir samningar og þeir munu renna út. Eru einhver úrræði fyrir þann hóp þegar leigusamningarnir renna út?

Ég veit að hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra finnst sú staða sem komin er upp á leigumarkaðinum alvarleg og ég veit að hún vill bregðast við ástandinu. Því verður gaman og gott að heyra afstöðu hennar til þessara mála.

Skoðun mín er sú að það væri gagnlegt að hafa leigumarkað sem býður upp á hagstæðar íbúðir fyrir mismunandi fjölskyldustærðir, leigumarkað þar sem húsnæði er á viðráðanlegu verði, leigumarkað þar sem fjölskyldur og einstaklingar hafa öruggt húsaskjól og gætu byggt sér heimili til langs tíma, allt eftir þörfum hvers og eins.

Ég fagna því að nú liggi hér fyrir í þinginu tillaga til þingsályktunar, en samkvæmt henni ályktar Alþingi að fela ríkisstjórninni að grípa til aðgerða til að auka eins hratt og kostur er framboð leiguhúsnæðis til að bregðast við því alvarlega ástandi sem upp er komið á húsnæðismarkaðnum.

Í tillögunni er í sex liðum fjallað um ýmsar mjög góðar hugmyndir sem gætu komið að gagni við að efla leigumarkaðinn. Væri fróðlegt að heyra frá hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hvernig henni líst á þær hugmyndir sem þar koma fram og hvort þær séu raunhæfar á þeirri leið að gera leigumarkaðinn að raunhæfum valkosti fyrir fjölskyldur og einstaklinga sem vilja búa áfram hér á landi.

Ég er viss um að við öll sem störfum hér í umboði kjósenda okkar, óháð flokkum, erum sammála um að þörf er á aðgerðum á leigumarkaði þannig að auðveldara verði fyrir fjölskyldur og einstaklinga að tryggja sér þak yfir höfuðið.