142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

staðan á leigumarkaðinum.

[16:28]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég fagna því að þessar umræður hafa átt sér stað. Mér finnst eitt svolítið mikilvægt, það hefur komið fram í þessum umræðum. Ég man eftir að ég sat á fundi með Íbúðalánasjóði og fleirum á síðasta kjörtímabili. Þar var einmitt rætt um af hverju ekki væri hægt að nýta þær íbúðir sem Íbúðalánasjóður og bankarnir eiga á leigumarkaði.

Minn skilningur eftir þá fundi var að það væri svo vont út af því að þá mundi húsnæðisverð lækka. En hvort er mikilvægara að við reynum að stjórna markaðinum á þennan hátt eða að fólk hafi þak yfir höfuðið? Ég verð bara að spyrja.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra Eygló Harðardóttur hvort það sé eitthvað í framtíðarsýn ráðherrans um hvernig eigi að tækla þetta, t.d. það hvað margar íbúðir standa auðar og liggja jafnvel undir skemmdum. Væri sniðugt að setja einhver tímatakmörk um það hversu lengi þessar íbúðir mega vera tómar?

Mér finnst gríðarlega mikilvægt að við séum ekki bara að tala núna og búa til enn eina nefndina, það er mikilvægt að setja einhvers konar tímamörk þannig að maður veki ekki falsvonir. Ég veit að það er orðið mjög algengt að fólk um þrítugt fari aftur heim til mömmu og pabba. Er þetta ásættanlegt? Og hvað með fólk sem á enga að? (Gripið fram í: Ég er með eina 28 ára.) Og verðið á húsnæði er svakalegt. Svo er verið að leigja bara yfir veturinn og hvað verður þá um fólkið á sumrin? Á það að fara í Laugardalinn? Nei, þar er allt fullt af túristum.

Það er gríðarlega mikilvægt að tekið sé á þessu strax, ekki eftir hálft ár heldur núna.