142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

staðan á leigumarkaðinum.

[16:31]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu. Ég er sjálf leigjandi. Ég hef verið að leigja 40 fermetra bílskúr og flutti nýlega úr tveggja herbergja íbúð sem var um 50 fermetrar. Okkur fannst það stór framför frá því sem við höfðum áður verið í, sem var bílskúrinn. Núna er ég að vísu með smávíðáttubrjálæði því að húsnæðið er aðeins stærra í dag. En ég er enn þá leigjandi.

Þessi reynsla mín, alveg eins og reynsla hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, segir manni bara á eigin skinni hversu mikilvægt er að taka á þessu. En það er ekki fyrst og fremst það sem rekur mann áfram heldur að heyra í fólki. Það hringir inn, sendir inn skilaboð og maður sér viðtöl við fólk sem er í svo hræðilegri aðstöðu, miklu verri aðstöðu en ég held að nokkur hér hafi nokkurn tímann upplifað.

Ég vil sérstaklega fá að nefna stöðu innflytjenda. Ég tók það sérstaklega upp við formann innflytjendaráðs að innflytjendaráð mundi fjalla um stöðu innflytjenda á húsnæðismarkaði. Þeirra staða er verri en almennt gerist og við þurfum að taka sérstaklega á því, skoða hvað við getum gert.

Ég hef líka lagt áherslu á viðbrögð við bráðavandanum. Við erum að reyna að vinna eins hratt og hægt er að því að fá niðurstöðu varðandi framtíðarskipan húsnæðismála, en það er ekki þar með sagt að við séum að bíða eftir því. Ég fór í ræðu minni í gegnum það sem við erum þegar byrjuð að gera. Það sem ég hef líka lagt áherslu á er að þessu breytir enginn einn. Þess vegna er svo gott að finna fyrir ríkum samhug í þingsal um að við ætlum okkur að breyta húsnæðismarkaðinum. Við ætlum að tryggja fólki val og öryggi þannig að það geti valið að leigja eða að kaupa og búi við öryggi.

Það er risaverkefni og eina leiðin til þess að við getum gert þetta er að við tökum öll höndum saman. Þess vegna hef ég tekið þetta upp við aðila vinnumarkaðarins. Þess vegna hef ég rætt þetta (Forseti hringir.) við hvern sem er því að þetta er nokkuð sem við verðum að vinna saman.