142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

48. mál
[18:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir að málið hafi komist á dagskrá með afbrigðum, en hér mæli ég fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.

Í fyrsta lagi er lagt til í 4., 5., 6., 7. og 10. gr. frumvarpsins að hugtakanotkun um endurskoðun verði færð til samræmis við notkun hugtaka í löggjöf á fjármálamarkaði en þar er hugtakið „innri endurskoðun“ til að mynda notað yfir það sem er nefnt innra eftirlit á nokkrum stöðum í lögum nr. 129/1997.

Í öðru lagi eru lagðar til þær breytingar í 2. og 14. gr. frumvarpsins er lúta að starfsendurhæfingu. Annars vegar er lagt til að lífeyrissjóði verði veitt heimild til að skilyrða greiðslu örorkulífeyris við að sjóðfélagi fari í endurhæfingu, enda liggi fyrir álit trúnaðarlæknis sjóðsins. Samsvarandi ákvæði er að finna í lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Lagt er til að öðrum lífeyrissjóðum verði heimilt að byggja á slíkum sjónarmiðum og í því sambandi er sérstaklega litið til laga nr. 60/2012, um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, þar sem meðal annars er mælt fyrir um rétt þeirra sem þiggja örorkulífeyri frá lífeyrissjóðum til starfsendurhæfingar á vegum starfsendurhæfingarsjóða. Hins vegar er lagt til að framlag lífeyrissjóða til starfsendurhæfingar samkvæmt 6. gr. laga nr. 60/2012, um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, verði ekki núvirt við tryggingafræðilega athugun á fjárhag sjóðanna fyrr en niðurstöður þeirrar heildarúttektar á þjónustu sjóðanna sem mælt er fyrir í 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis II í lögum nr. 60/2012, um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, liggja fyrir en frestur til að framkvæma úttektina var framlengdur um tvö ár í meðförum Alþingis.

Í þriðja lagi eru lagðar til tvær breytingar á ákvæði til bráðabirgða VI í lögunum. Fyrri breytingin er til þess að taka af allan vafa um vægi eldra ákvæðis til bráðabirgða VI með vísan til fimm ára reglunnar í 2. málslið 2. mgr. 39. gr. laganna. Með síðari breytingunni er lagt til að lífeyrissjóði verði heimilt að hafa meira en 10% mun á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga samfellt í sex ár frá og með árinu 2008. Að öðrum kosti þarf stjórn LSR að hækka framlag launagreiðenda fyrir hinn 1. október næstkomandi. Með frestuninni gefst meiri tími til þess að ljúka tillögum um eitt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn sem nefnd stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins hefur unnið að á undanförnum missirum og til að vinna að varanlegri úrlausn á stöðu A-deildar LSR í heildstæðu samhengi við lífeyrisréttindi og kjaramál á vinnumarkaði.

Í tengslum við fjárhagsvanda A- og B-deilda LSR hefur verið starfandi starfshópur sem í eiga sæti, auk fulltrúa fjármála- og efnahagsráðherra, fulltrúar BHM, BSRB, KÍ og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hlutverk starfshópsins er að fara yfir stöðu sjóðanna og koma með tillögur að framtíðarlausn. Starf nefndarinnar og starfshópsins er vel á veg komið. Nokkur atriði eru þó enn óútkljáð og því er lagt til að aðilum verði veittur aukinn frestur til þess að leiða mál þetta til lykta.

Í fjórða lagi eru lagðar til tvær breytingar á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða, í 8. og 13. gr. frumvarpsins. Annars vegar er lagt til að heimildir lífeyrissjóða til að eiga allt að 20% hlutafé í samlagshlutafélögum verði framlengd um eitt ár, þ.e. til 31. desember 2014, til þess að auðvelda lífeyrissjóðunum að standa að slíkum félögum. Hins vegar er lagt til að mælt verði fyrir um að greiði launagreiðandi inn á skuldbindingu sína við lífeyrissjóð sem nýtur bakábyrgðar ríkis eða sveitarfélaga með óskráðum skuldabréfum verði sjóðnum heimilt að eiga slík skuldabréf óháð fjárfestingartakmörkunum 36. gr. laganna. Er breytingunni ætlað að greiða fyrir samningum á milli lífeyrissjóða sem njóta bakábyrgðar ríkis eða sveitarfélaga og launagreiðenda sem tryggðu starfsmenn í sjóðunum og ábyrgjast greiðslur til þeirra úr sjóðunum. Ákvæðið sem hér er lagt til hefur ekki áhrif á stöðu bakábyrgðaraðila.

Að auki eru lagðar til í frumvarpinu smávægilegar breytingar sem varða meðal annars reglugerðarheimildir, tilkynningar og fresti.

Ég vil segja í tilefni af þeirri umræðu sem hér átti sér stað um atkvæðagreiðslu um það hvort málið mætti koma á dagskrá að ég hef fullan skilning á því að þyki nefndarmönnum í efnahags- og viðskiptanefnd, sem ég legg til að málinu verði vísað til, á þessum stutta stubbi, sem við erum hér á í septembermánuði undir lok þings, sem uppi séu of mörg álitamál í þessu máli til að það fáist afgreitt í heild sinni geri ég að sjálfsögðu engar athugasemdir við það, enda augljóst að mál þetta er lagt fram þegar einungis lifa örfáir dagar eftir af þinginu. Mér þykir hins vegar mikilvægt að vekja athygli á því að það skiptir verulega miklu máli að þau atriði sem þó getur tekist sátt um fáist afgreidd. Þar nefni ég í fyrsta lagi framlengingu á heimild til að hafa meira en 10% mun á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga sem ég hef áður rakið. Ég get einnig sagt fyrir mitt leyti að ég hlýt að líta svo á að aðrar breytingar sem ef til vill mætti kalla tæknilegar, eins og breytt hugtakanotkun sem er eins konar lagahreinsun og samræmingarverk, ættu ekki að vefjast mjög fyrir mönnum enda komu ekki fram nein ný sjónarmið um þau atriði. Ég tel að í öðrum atriðum sé, hvað sem líður endanlegri afgreiðslu frumvarpsins eins og það er hér lagt fyrir, mikilvægt að málið hafi þá komið fram og þessar fyrirætlanir orðnar ljósar þinginu og þeim sem málið varðar. Það mun þá, ef til þess kemur, væntanlega greiða fyrir skjótri afgreiðslu málsins á síðari stigum ef það verður þá aftur lagt fram.

Mér finnst ástæða til að ítreka að það hefur verið ágætur gangur í þeirri vinnu að finna betra framtíðarfyrirkomulag á lífeyrissjóðakerfinu. Þess vegna legg ég afar mikla áherslu á að því starfi verið gefinn tími og svigrúm til að útkljá það sem út af stendur. Hér er ekki um lítið mál að ræða fyrir ríkissjóð og alla sem að málinu koma til lengri tíma litið. Þetta skiptir einnig máli í tengslum við kjaraviðræðurnar fram undan. Þess vegna mætti með réttu kalla það meginefni frumvarpsins að gera þá breytingu.

Ég vil síðan segja um þá heimild lífeyrissjóða að fara með allt að 20% hlutafé í samlagshlutafélögum að þar tel ég að sú tímabundna heimild sem veitt var fyrir fáum árum, í kjölfar hrunsins, hafi átt að koma til endurskoðunar á þessum tíma með hliðsjón af ástandinu á mörkuðum og möguleikum lífeyrissjóðanna til að draga á þessum tímapunkti aftur úr hlutdeild sinni í samlagsfélögum. Ég met stöðuna þannig eins og sakir standa að nauðsynlegt sé að framlengja þessa heimild. Auðvitað getur nefndin tekið það til sérstakrar skoðunar en með því að láta heimildarákvæðið falla aftur í fyrri prósentutölu tel ég að það væri þrengt að lífeyrissjóðunum varðandi fjárfestingarheimildir þeirra sem þó eru hvergi nærri fullnægjandi eins og fjárfestingarumhverfið er á Íslandi í dag.

Virðulegi forseti. Ég ítreka að ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.