142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

afnám hafta og uppgjör gömlu bankanna.

[14:35]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra svörin og vona að honum gefist tími til þess í seinni ræðu — auðvitað er tíminn knappur — að koma inn á þetta með þverpólitíska samstarfið, hvernig því verður hagað og eins kannski hvort loforð forsætisráðherrans, um nýja afnámsáætlun nú strax í september, muni standa.

Ég verð þó að lýsa nokkrum vonbrigðum með það hversu lítið virðist hafa gerst undanfarna fjóra mánuði. Ég segi það eins og er að mér fannst vera hálfgerður byrjendabragur á þessu hjá hæstv. ríkisstjórn. Það dugar ekki í afdrifaríku stórmáli af þessu tagi að yfirlýsingar séu óljósar eða jafnvel mótsagnakenndar og að ekki liggi skýrt fyrir hver hafi umboð til hvers, t.d. til þess að ræða við kröfuhafa. Hvert eiga þeir að snúa sér?

Hæstv. forsætisráðherra hefur sagt að kröfuhafar eigi sjálfir að taka frumkvæðið, samanber viðtal við hann 22. ágúst sl. Það telja þeir sig einmitt hafa gert, bæði bréflega og með umsóknum til Seðlabankans. En við hverja eiga þeir að tala? Eiga þeir að bíða eftir óskipaðri sérfræðinganefnd? Eiga þeir að tala við Seðlabankann? Eiga þeir að tala við fjármálaráðherra? Eiga þeir að tala við forsætisráðherra?

Ég er áfram aðeins hugsi yfir stöðu Seðlabankans þó að ég þakki hæstv. fjármálaráðherra að öðru leyti fyrir að staðfesta að í aðalatriðum hefur verið starfað samkvæmt gildandi skipulagi í þessum efnum, það tel ég ráðlegt og tel að það hafi gefist vel. En halda ber því til haga að það er árvekni fyrri ríkisstjórnar og Seðlabankans að þakka að við erum þó í þeirri stöðu sem við erum til að hafa tök á þessum málum. Lagasetningin í mars 2012 leikur þar lykilhlutverk, að færa eignir gömlu bankanna inn fyrir gjaldeyrishöftin. Seðlabankinn verður að eiga það sem hann á að hann steig varlega til jarðar, hefur flýtt sér hægt við að setja undanþágur frá þeim lögum og tekið sér góðan tíma í að taka afstöðu til óska slitastjórnar um nauðasamninga.

Ég er innilega sammála því að hér þarf að vanda til verka og þess vegna mega einmitt ekki kosningaloforð eins stjórnmálaflokks leiða okkur út í ógöngur. Við ætlum okkur væntanlega að láta þetta takast vel og farsællega út frá okkar þjóðarhagsmunum um leið og við ætlum ekki aftur að rústa orðspori Íslands. Við viljum væntanlega ekki horfa til þeirrar framtíðar að enginn vilji lána Íslandi fé þegar upp verður staðið og enginn fjárfestir koma nálægt okkur nema með töngum.