142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[15:19]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér eru greidd atkvæði um tillögu til rökstuddrar dagskrár. Hv. þm. Guðbjartur Hannesson hefur gert mjög vel grein fyrir bæði þeim röksemdum sem hér eru færðar fram og tilurð þeirrar tillögu sem lögð er fram. Um er að ræða frumvarp þar sem gengið er á stjórnarskrárbundin réttindi til friðhelgi einkalífsins og ósannfærandi rök fyrir því að almannahagsmunir séu nægir til þess að það sé verjandi.

Við höfum í minni hlutanum lagt áherslu á það á öllum stigum þessa máls að við höfum ríkan vilja til þess að taka þátt í því með meiri hlutanum að útbúa löggjöf sem stenst skoðun betur en sú sem hér er undir. Það veldur mér vonbrigðum ef það verður ekki niðurstaðan hér í anda samstöðu- og samvinnustjórnmála en tillagan fjallar sem sé um það að vísa frumvarpinu frá eins og það liggur fyrir frá nefndinni og hefja þverpólitíska vinnu sem liggi fyrir í upphafi þings í október.