142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[15:36]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil hafa það skýrt hér að ég styð þá viðleitni ríkisstjórnar að kortleggja og fylgjast með skuldastöðu og afkomu íslenskra heimila og vil gjarnan að fundin verði ásættanleg leið til þess að svo sé hægt. Frumvarpið sem hér var lagt fram var um margt óljóst og kemur í ljós að það stangast á við bæði persónuverndarlög og mannréttindalög. Þess vegna höfum við óskað eftir því að fá að vinna frumvarpið betur og það sem gerði svo að lokum útslagið var þegar það var upplýst að þetta væri á engan hátt forsenda fyrir því að leysa úr skuldavanda. Allar þær tillögur áttu að koma fram í haust en síðan ætti þessi tölfræði að koma einhvern tímann á vormánuðum.

Ég vil ekki þvælast fyrir í þessu máli. Við höfum lofað því að fylgja því eftir að ríkisstjórnin nái því fram að leysa úr vandanum hvað varðar skuldavandann. Því mun ég ekki greiða atkvæði en treysti á að haft verði víðtækara samráð og leitað betri lausna en var í þessu máli og sýndur minni hroki en hér hefur komið fram.