142. löggjafarþing — 29. fundur,  17. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[15:39]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Við höfum rætt þetta mál svolítið mikið en því miður fyrir daufum eyrum eins og sést mjög skýrt þegar hæstv. forsætisráðherra stígur hér upp í pontu og talar um að minni hlutinn sé á móti öllu. Mér sýnist það vera endurunnin rök frá þarseinasta kjörtímabili gagnvart Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, ef ég skil þetta rétt. En það er mjög lélegt að hafa ekki fengið að njóta nærveru ríkisstjórnarflokkanna í þessari umræðu vegna þess að ég fullyrði, án þess að vilja leggja öðrum orð í munn, að ef þetta þing væri ekki háð ríkisstjórnarsamstarfi og þingmenn hér inni hefðu hlustað á umræðurnar og væru að greiða atkvæði samkvæmt eigin sannfæringu þá mundi þetta frumvarp ekki ná í gegn. Það stenst ekki stjórnarskrá. Fyrir mitt leyti er þetta engin spurning, ég hef ekkert val. Þingmaðurinn segir nei.