142. löggjafarþing — 30. fundur,  18. sept. 2013.

kynbundinn launamunur.

[15:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er ákaflega mikilvægt og göfugt verkefni að vinna að því að allir njóti sanngjarnra kjara miðað við ábyrgð og stöðu, sambærilegra launa fyrir sambærileg störf þvert á kyn. Reynsla undanfarinna ára sýnir okkur að hér er hægara um að tala en í að komast. Ég minnist mjög hástemmdra yfirlýsinga hjá síðustu ríkisstjórn í þessum efnum og ég efast ekki um góðan hug, mikinn vilja og einbeittan ásetning fyrrverandi forsætisráðherra til þess að vinna á þessum vanda en það gerðist hins vegar afskaplega lítið. Um tíma sýndu mælingar að þróunin var í öfuga átt.

Ég held að það sé gott að byrja á því að gera sér grein fyrir að þetta er ekki áhlaupsverkefni en sá grunnur sem hv. þingmaður leggur upp hér með um að menn séu sammála um að þetta sé mikilvægt, að allir leggi sitt lóð á vogarskálarnar, hið opinbera sé tilbúið til að leggja á sig og hlusta eftir ábendingum um það sem getur skilað árangri, að við köllum eftir því sama frá aðilum vinnumarkaðar á hinum frjálsa markaði — hann skiptir máli.

Ég tel einnig að umræðan um þessa hluti og mælingarnar sem hafa verið gerðar og draga vandann upp á yfirborðið, átak hjá VR um að kynna hvers eðlis vandinn er, allt þetta hefur hjálpað. Það hefur skapast miklu betri grundvöllur smám saman fyrir því að ráðast í aðgerðir, en það hvernig þeim er síðan á endanum hrint í framkvæmd er alveg gríðarlega flókið mál, við verðum að viðurkenna það í þessari umræðu. Tilhneigingin er sú að ákvarðanir um kaup og kjör hafi áhrif upp fyrir sig og til hliðar (Forseti hringir.) þannig að á endanum sitja menn uppi með sömu stöðu og var, bara í nýjum hlutföllum.