143. löggjafarþing — 2. fundur,  2. okt. 2013.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:43]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Kæru landsmenn. Mál málanna er það gríðarlega óréttlæti sem lántakendur hafa þurft að þola. Við píratar setjum áherslu á þrjú atriði þegar kemur að skuldamálum heimilanna. Þau byggja öll á grunnréttlæti. Það er réttlæti að nauðungarsölur séu stöðvaðar lögum samkvæmt þar til dómstólar taka af allan vafa um lögmæti lánasamninga, sér í lagi þegar kemur að heimilum landsmanna.

Hér getur þingið að minnsta kosti fyrirskipað stjórnendum Íbúðalánasjóðs með lögum að gera ekki aðför að heimilum fólks fyrr en dómstólar taka af allan vafa um lögmæti lánanna. Rúm 50% húsnæðislána eru hjá sjóðnum svo þetta væri strax mikið öryggi fyrir landsmenn.

Í öðru lagi er réttlæti að fólk hafi raunhæf úrræði til að leita réttar síns fyrir dómstólum. Fólk sem skuldar mikið hefur þau ekki vegna þess að það hefur ekki efni á úrræðunum. Innanríkisráðuneytið getur höfðað öll mál þar sem vafi er um lögmæti lánasamninga til að tryggja heildarhagsmuni neytenda, í þessu tilfelli lántakenda. Hæstiréttur úrskurðaði um það á síðasta ári að þau lög sem heimila slíkt séu virk. Nú er bara að nota þau. Og maður spyr sig: Er það vanræksla að nota þau ekki?

Það er líka réttlæti að fólk fái bættan skaða vegna ólögmætrar eignaupptöku og gjaldþrota sem byggja á ólöglegum lánum og ólöglegri málsmeðferð. Hér getur meiri hluti Alþingis samþykkt lagafrumvarp um endurupptöku mála.

Ég er sá pírati sem mun fylgja þessu máli eftir á Alþingi eins og ég hef gert á sumarþinginu. Ég tók sjálfur hvorki húsnæðislán né bílalán en þetta brennur á mér því að óréttlætið er gríðarlegt og það er ólíðandi. Við eigum ekki að líða það.

Ég mun gera mitt besta til að vera málsvari eignarréttar lántakenda á Alþingi og jafnframt verja friðhelgi einkalífs fólks og heimilis og fjölskyldu sem er ekki verið að gera ef það er gengið að heimili fólks og það selt nauðungarsölu. Jafnvel þó að kveðið sé á um að ekki þurfi dómsmál í lánasamningunum sjálfum hefur Evrópudómstóllinn kveðið á um að ekki megi gera slíkt við heimili fólks. Það byggir á tilskipun sem hefur verið innleidd í íslensk lög.

Við píratar höfum lagt fram þingsályktunartillögu um að þjóðaratkvæðagreiðslan 20. október fyrir ári verði virt. Góð stjórnarskrá á að girða okkur stjórnmálamenn af svo við skemmum ekki góðar stundir landsmanna. Stjórnmálamenn munu ganga eins langt og þeir komast upp með, það þekkjum við vel. Góð stjórnarskrá tryggir að valdaframsal sé lýðræðislegt en í dag geta kjósendur aðeins valið milli flokka, sem meðal annars fá atkvæði í krafti fjármagns frá fyrirtækjum, í stað þess að kjósa fólk þvert á flokka.

Valddreifing þarf að vera víðtæk en löggjafarvaldið kýs í dag framkvæmdarvaldið sem svo skipar dómsvaldið.

Valdbeiting verður að vera gegnsæ. Ráðamenn geta í dag að geðþótta haldið gögnum leyndum fyrir landsmönnum. Þetta sáum við vel í Icesave-deilunni þar sem leyniskjöl voru falin fyrir landsmönnum, gríðarlega mikilvæg skjöl.

Valdumboð verður að vera afturkallanlegt. Eina leið kjósenda í dag til að kalla aftur umboð okkar er að standa úti á Austurvelli, brenna jólatré, hamra á trommur og slá potta og pönnur aftur og aftur og aftur, mánuðum saman.

Valdmisnotkun verður að vera refsiverð. Í dag þarf meiri hluti þingmanna að samþykkja ákæru vegna valdmisnotkunar og landsdómur dæmir svo til refsingar. Þetta höfum við reynt einu sinni og refsing var í rauninni ekki í boði þá þó að aðili hafi verið fundinn sekur.

Til að setja í samhengi bið ég fólk um að rétta upp hönd sem treystir lögfræðingi fyrir heimilisfjármálum sínum án þess að slík ákvæði væru í gildi í samningi. Ég sé engan rétta upp hönd — réttilega. Og þá bið ég fólk að rétta upp hönd ef það treystir stjórnmálamönnum fyrir heimilisfjármálum, ríkisfjármálum og öllum lögum landsins án þess að þessar áðurnefndu valdtakmarkanir séu tryggðar í stjórnarskrá.

Menn brosa, jú, það er einn sem réttir upp — glas að vörum en ég sé engar hendur á lofti.

Við erum með mörg önnur mál í vinnslu eins og það að forritun verði kennd á öllum skólastigum. Það er hluti af stefnu okkar um netvænt Ísland sem tryggir grundvallarrétt og verðmætasköpun á internetinu, að það fari saman. Það er mjög mikilvægt atriði.

Það eru mörg þverpólitísk verkefni sem við öll ættum að geta sameinast um, þetta eru verkefni sem skapa innstreymi erlends fjármagns, fjölga starfsfólki í fyrirtækjum, geta tvöfaldað fjöldann sem nýtir internetið mikið, aukið útflutning o.s.frv. Þetta kostar okkur bara það að við gerum þetta á þinginu.

Mikið hefur verið rætt um betra Ísland hér í kvöld. Þá langar mig að segja ykkur, hæstánægður, að í þessum mánuði munum við byrja að leggja fram þingmál af lýðræðisvefnum betraisland.is svo að þið, kæru landsmenn, getið komið beint að starfinu á Alþingi. Spurningin er: Hvaða hugmynd skiptir mestu máli að fari á dagskrá Alþingis? Hugsið það, farið svo í tölvuna, stimplið inn betraisland.is og takið þátt.