143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:12]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðisgóða ræðu þar sem hún fór yfir margt. Þó svo að ég sé ekki sammála hv. þingmanni um alla hluti, eðli málsins samkvæmt, þá fannst mér gott að heyra, og hef svo sem heyrt það hjá öðrum stjórnarandstæðingum, sem er mjög mikilvægt, að vilji sé til þess að ná hallalausum fjárlögum. Það er nokkuð sem við getum sameinast um og er afskaplega mikilvægt að það haldi.

Ég vildi hins vegar spyrja hv. þingmann vegna þess að hún var eðli málsins samkvæmt í stjórnarmeirihluta á síðasta kjörtímabili og talar eins og flestir hv. þingmenn tala núna, sem er mjög mikilvægt, um mikilvægi þess að vernda heilbrigðisþjónustuna, vernda Landspítalann, hvort henni finnist ekki skrýtið, miðað við þau orð sem ekki hafa heyrst lengi, að sjá það að á síðustu fjórum árum þegar búið er að fjölga opinberum starfsmönnum, starfsmönnum ríkisins, um 200 er búið að fækka starfsmönnum Landspítalans á þessum fjórum árum um 350 en það er búið að fjölga í undirstofnunum umhverfisráðuneytisins um 130. Ég spyr núna vegna þess að við erum sammála um að ná hallalausum fjárlögum: Er þetta ekki röng forgangsröðun? Er þetta ekki eitthvað sem við þurfum að leiðrétta?

Sömuleiðis vil ég spyrja hv. þingmann út af umræðunni um sjúklingagjöldin hvort við verðum ekki að taka þau mál í heild sinni, einfaldlega vegna þess að á síðustu fjórum árum, í tíð síðustu ríkisstjórnar og í tíð þeirra þingmanna sem gagnrýna harðast núna þessa hluti, þá jókst mjög hlutdeild kostnaðar hjá sjúklingum. Nú er alveg ljóst að enginn verður sjúklingur að gamni sínu. (Forseti hringir.) Þurfum við ekki að skoða hvað hefur gerst?