143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:38]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst um fóðursjóðinn sem er lagður niður, m.a. að ráðleggingu Ríkisendurskoðunar. Ég held að það sé fullt tilefni til að leggja hann niður og á það hafa margir bent á undanförnum árum en það eru áhöld um hvort það sparar peninga. Þetta var millistreymissjóður sem byggði á útgjöldum og tekjum þannig að það er kannski sparnaður í umsýslunni sem var í kringum sjóðinn en engu að síður er fagnaðarefni að þetta sé gert.

Varðandi landbúnaðarkerfið almennt held ég einfaldlega að við þurfum að fara inn í það kerfi og spyrja okkur: Ef við ættum að ákveða þetta núna mundum við setja allan þennan pening í framleiðslu á lambakjöti og mjólkurvörum? Mundum við hugsanlega, eins og margar aðrar þjóðir gera, nota svona mikla fjármuni í breiðari styrkveitingar sem auka fjölbreytni í atvinnulífi meira? Ég held að það sé til dæmis spurning sem mætti takast á við varðandi landbúnaðarkerfið.

Hvað varðar gjaldtöku af sjúklingum er ég í megindráttum sammála því sem kom fram í máli hv. þingmanns um að það eigi að hlífa langlegusjúklingum. Það hlýtur að vera stefnan. Ég held að skynsamlegt sé að setja einhvers konar þak á gjaldtöku af sjúklingum þannig að jafnræðið sé meira. Mér finnst í sjálfu sér ekkert jafnræði í því núna að ef fólki er vísað heim og látið liggja heima en ekki á spítalanum greiðir það mjög mikið. Ef fólk fer á göngudeild greiðir það mjög mikið. Mér finnst það ekki sanngjarnt. Mér finnst mjög mikilvægt að við skoðum málin út frá því hvernig kerfið er núna. Það er ekki ókeypis, hefur ekki verið ókeypis um langa hríð og hefur held ég aldrei verið ókeypis. (Forseti hringir.) Í öllu falli greiðum við fyrir það með sköttunum í dag.