143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:00]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég skil hann svo að hann sé fylgjandi þessari leið sem hæstv. fjármálaráðherra hefur lagt upp með varðandi skattinn og þrotabúin. Það skiptir máli að það sé líka ljóst að menn séu sammála og það er vel. Sömuleiðis skil ég hv. þingmann þannig að hann sé sammála því sem hæstv. fjármálaráðherra leggur upp með varðandi samskipti við Seðlabankann. Hæstv. fjármálaráðherra hefur nákvæmlega farið yfir þetta svona. Því er ekkert haldið fram að hér hafi fundist einhver gullæð og það eru engin leyndarmál í því. Ég skil hv. þingmann þannig að hann sé sammála því.

Við verðum að tala út frá réttum forsendum, við vitum núna hver hallinn var, ekki það sem lagt var upp með, og ég held að umræðan hefði verið upplýstari og betri ef forustumenn í síðustu ríkisstjórn hefðu sagt þessa hluti eins og þeir eru.

Ég skil hv. þingmann þannig að hann hafi ekkert áttað sig á þessu fyrr en bara eftir kosningar, að þetta yrði niðurstaðan. Ef ég hef rangt fyrir mér, ef ég er að túlka orð hv. þingmanns með einhverjum öðrum hætti en þau voru sögð eða er meining hv. þingmanns, bið ég hv. þingmann að leiðrétta mig. Hv. þingmaður talaði um væntingar og annað slíkt og ég held að það sé mjög mikilvægt að fólk sé meðvitað um það. Hv. þingmaður rakti ákveðnar ástæður fyrir því af hverju hallinn er miklu meiri en lagt var upp með, það eru þó fleiri ástæður, en ég bara spyr hv. þingmann aftur hvenær hann hafi áttað sig á þessari stöðu og hvort hann hafi rætt það eitthvað á opinberum vettvangi.