143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[10:42]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Ég vil þó koma inn á einn punkt varðandi veiðigjöldin. Það var algjörlega ljóst að þau lög sem áttu að taka við voru óframkvæmanleg. Gert er ráð fyrir því í fjárlögum að innheimta umtalsverð veiðigjöld af þessari atvinnugrein, af útgerðinni. Ég hugsa að við getum verið sammála um það, ég og hv. þingmaður, að ef innheimta á auðlindagjald eða eitthvert gjald fyrir afnot og aðgang að auðlind sé eðlilegt að það gjald taki mið af rekstri fyrirtækja, að þau sem ganga betur borgi meira en hinir. Það þarf líka að taka inn í þetta hvort eðlilegt sé að menn fái afslátt af skuldum og þess háttar. Ég veit að í atvinnuvegaráðuneytinu, í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, er verið að vinna að nýjum reglum með útfærslum varðandi innheimtu á veiðigjöldum.

Svo má heldur ekki gleyma því að útgerðin greiðir, eins og önnur fyrirtæki í landinu, skatta, tekjuskatt og annað. Ætli það sé ekki óhætt að fullyrða að skattgreiðslur af hálfu þessarar atvinnugreinar nemi hátt í 20 milljörðum kr. á næsta ári? Það er allt í lagi líka að velta fyrir sér í þessari umræðu hvort aðrar atvinnugreinar sem nýta auðlindir með einhverjum hætti eigi þá ekki að gera slíkt hið sama, að greiða einhvers konar gjald fyrir afnot af auðlindinni, hvort sem það eru þá bylgjur í loftinu, náttúran, orkan eða annað. Ég held að það sé alveg umræða sem við þurfum að taka inn í framtíðina þegar við erum búin að skilgreina hvað eru auðlindir, hvort þeir sem nýta auðlindir landsins eigi að borga einhvers konar afgjald fyrir þær.