143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:40]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þær umræður sem hafa farið hér fram um fjárlagafrumvarpið frá byrjun. Þær hafa verið málefnalegar að mestu og þær hafa verið uppbyggilegar. Stóru fréttirnar í fjárlagafrumvarpinu eru náttúrlega þær að það skuli vera hallalaust.

Heilt yfir mundi ég vilja segja að ég tel æskilegt í framtíðinni að alþingismenn komi fyrr að fjárlagagerð en nú er, þ.e. þegar frumuppstilling fer fram, og láti ekki tilfærslur milli einstakra liða alfarið í hendur embættismanna. Þegar öllu er á botninn hvolft eru það stjórnmálamenn sem bera ábyrgðina á fjárlögum.

Ég skal viðurkenna að auðvitað erum við ekki ánægð með það sem gerist í einu fjárlagafrumvarpi vegna þess að við getum ekki uppfyllt allar væntingar sem gerðar eru til okkar í einu skrefi. En ég viðurkenni að það eru liðir í þessu frumvarpi sem ég er hugsi yfir. Ég get nefnt sem dæmi að ég er mjög hugsi yfir því að meðan við erum að leggja á sérstakt legugjald á sjúklinga upp á 200 millj. kr. eða þar um bil, fær Ríkisútvarpið 230 millj. kr. umfram launakostnaðarhækkun. Ég hugsa með mér: Hver ætli hafi ákveðið það sérstaklega að Ríkisútvarpið fái t.d. þessa hækkun? Það er önnur saga.

Það blasa við okkur góðar fréttir úr bæði sjávarútvegi og landbúnaði og þær eru ekki síst vegna þess að hér var tekin rétt ákvörðun í sumar varðandi veiðigjöld. Ég held að mörgum hér inni væri hollt að fara í bryggjuspjall á Súgandafirði, á Snæfellsnesi, á Hólmavík og tala þar við smáútgerðarmenn sem sögðu við mig hópum saman í sumar: Ef veiðigjaldið hefði farið fram óbreytt værum við dauðir.

Stórútgerðin svokallaða, sem stjórnarandstæðingar börðust reyndar fyrir í vor þegar við vorum að hækka á þá, borgar hins vegar 75% af því veiðigjaldi sem álagt er og borgar auk þess tekjuskatt. Hér hefur komið fram að heildarskattheimta af útgerð og fiskvinnslu er 20 milljarðar á næsta ári. Á sama tíma tökum við upp nýjan skatt á fjármálafyrirtæki í slitum, rúma 11 milljarða kr. Það var löngu tímabært en það var ekki gert. Þannig að víða er hægt að finna holur til þess að við getum afgreitt fjárlög sem við verðum ánægðari með í framtíðinni. Fullvinnsla í sjávarútvegi hins vegar er einn af lykilþáttum sem við þurfum að koma að í því efni.