143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:44]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að minnast á verslunarfyrirtæki vegna þess að verðlag á landbúnaðarafurðum sem hér hefur komið dálítið til umræðu í morgun er ekki síst að þakka eða kenna þeim sem versla með þessar afurðir. Ég held að það væri afskaplega fróðlegt fyrir neytendur að fá skiptingu á því hvernig verðmæti eins lambalæris skiptist milli bænda, sláturleyfishafa, kaupmanna og ríkisins. Ég held að það væri mjög upplýsandi.

Það eru sem betur mörg tækifæri í landbúnaði. Nú er útlit fyrir að meira verði framleitt á næsta ári heldur en nú, en að framlög til greinarinnar verði nær óbreytt. Það þýðir að styrkur, ef við getum orðað það þannig, til framleiðslunnar er minni á hverja framleiðslueiningu en verið hefur. Við eigum mikla möguleika með okkar hreinu og góðu afurðir.

Mjög nýlega las ég grein í ágætu kvennatímariti, dönsku, þar sem hollusta smjörs eins og við erum að framleiða var mjög tíunduð. Það kom meðal annars fram í greininni að konum sem borða gult smjör af grasbítum sem ekki hafa borðað mikið af fóðurbæti er síður hætta búin af brjóstakrabbameini. Þessa möguleika sem okkar hreinu afurðir eiga eigum við að nota og við eigum að hamra á þeim. Við eigum að hamra á því hvernig gróðurhúsaframleiðslan okkar er eiturfrí. Heimurinn kallar á hreinar landbúnaðarafurðir. Við eigum þær.