143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:11]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta yfirferð á málaflokknum. Eins og fram kom í ræðu hans þurfum við að hagræða og forgangsraða og þá helst í þágu grunnþjónustunnar. Þá hljótum við að horfa til skýrslu Hagfræðistofnunar um forgangsröðun fyrri hæstv. ríkisstjórnar sem fjölgaði störfum í umhverfisráðuneytinu og fækkaði þeim í heilbrigðisþjónustunni. Eru því ekki full færi til frekari hagræðingar og skipulagsbreytinga innan stofnana umhverfisráðuneytisins?

Hver eru þá markmið með slíkri hagræðingu og endurskipulagningu? Jú, til að byrja með, að mínu viti, að jafna þá mismunun sem fyrrverandi ríkisstjórn skapaði á milli umhverfis- og heilbrigðismála. Einnig, eins og kom fram í ræðu ráðherrans, eru fjölmörg verkefni á sviði umhverfismála sem við þurfum að vinna að og setja fjármuni í og nefndi hann þar allt frá refaveiðum til fræðsluseturs á Kirkjubæjarklaustri. Þetta eru allt mjög þörf verkefni og mörg fleiri.

Með því að endurskipuleggja á markvissan hátt í stofnunum er líka hægt að ná því markmiði að minnka álögur á atvinnulífið. Núna er atvinnulífið undir eftirliti frá fjölmörgum mismunandi stofnunum sem ég held að mætti samnýta. Þegar þetta allt er dregið saman horfum við til þess að setja fjármunina frekar í aðgerðir í umhverfismálum og verkefni í staðinn fyrir stjórnsýslu og eftirlit.

Það hryggir mig svolítið ef sú hagræðing sem hefur átt sér stað undanfarin ár hefur ekki leitt til neinna tillagna eða skipulags í þessa átt. Þurfum við núna þegar við komum að að að byrja upp á nýtt? Er þetta bara búinn að vera flatur niðurskurður? Hefur ekki verið nein stefna í skipulagsmálum til að ná þessum árangri hraðar fram? Markmiðið er, og hlýtur að vera, að koma verkefnunum í gang með bættu skipulagi þannig að fjármunirnir fari ekki allir í kerfið.