143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:43]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt sem hv. þingmaður segir um að við eigum ekki að vinna að heilbrigðismálum með þeim hætti að menn séu að reisa sér minnisvarða, frá því er langur vegur. Sem betur fer höfum við notið þeirrar gæfu að vera ekki með þá stöðu uppi í alllangan tíma.

Ég hef lýst því yfir hér að ég er að reyna að nýta sem mest af þeim tillögum og þeirri vinnu sem unnin hefur verið á undanförnum árum sem er á margan hátt mjög góð. Af einhverjum ástæðum sem óþarfi er að fjölyrða um hafa þær tillögur ekki komist lengra en bara í þá vinnu og komið fram. Nú tel ég að í stað þess að setja af stað nýjan vinnuhóp undir forustu nýs ráðherra o.s.frv. taki ég bara allan þann kraft sem lagður hefur verið í þetta á fyrri árum og reyni að framkvæmda þetta og koma því sem ég vissulega met best til framkvæmda. Eðli málsins samkvæmt er sumt mjög umdeilt, skiptar skoðanir um það. Það reynir á hvernig þessu er komið fram o.s.frv. Ég hef ekki samvisku til þess að ganga nær þeim stofnunum um landið sem hvað verst hafa farið út úr hremmingum síðustu ára á sviði heilbrigðisþjónustu og tel að þess þurfi ekki.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefnir hérna um það að ákveða ekki töluna fyrst heldur bíða þar til vinnunni er lokið – við þurfum líka að setja okkur einhver markmið varðandi þá vinnu sem fram undan er, hvernig hún kemur til með að leysast. Ég get alveg viðurkennt það að til stóð að þessari vinnu lyki fyrr en í stefnir, því miður. Það fer oft þannig með mannanna verk af ýmsum ástæðum. En ég hef fullan skilning á því sjónarmiði sem hv. þingmaður setur fram. Ég kalla hins vegar eftir því að menn einhendi sér eða stilli sig saman um það að standa vörð um þetta verkefni, að við ætlum okkur að setja þetta heildstæða greiðsluþátttökukerfi á laggirnar. (Forseti hringir.) Þá greiðir það m.a. úr vandamálum sem þessum.