143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:49]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst af öllu þakka ég hrósið. Ég vænti þess að við munum áfram eiga gott samstarf um brýn verkefni sem upp kunna að koma. Það er örugglega rétt að heilbrigðisráðherrar kemba ekki hærurnar mjög víða. En erfitt verkefni – ég kunni alltaf best við mig á sjónum þegar móttakan var full af fiski, þá var mest að gera og mestu verðmætin. Þannig háttar til að heilbrigðiskerfið heldur manni þokkalega vel gangandi enn þann dag í dag. En það er rétt að þunginn er vaxandi og kostnaður.

Ég ætla að segja þetta um Landspítalann. Ég er sammála Kára Stefánssyni, en við áttum ágætissamtal í Kastljósi í gær. Fyrst af öllu ber okkur sem stjórnmálamönnum og fagmönnum sem starfa á Landspítalanum að koma starfseminni á Landspítalanum í það horf sem við viljum hafa hana. Þegar við erum farin að sjá fram á að höndla þann veruleika sem þar er við að glíma getum við sett áform um þessa stóru byggingu á fulla ferð. Þeim áherslum er ég sammála. Þannig hef ég horft á þetta og ég gerði grein fyrir því þegar við afgreiddum frumvarpið í fyrravor að ég hafði alltaf og hef alltaf haft fyrirvara á því hvernig við getum fjármagnað þessa þætti.

Varðandi rafrænu sjúkraskrána. Já, ég hef kynnt mér málið lítillega, ég hef ekki sökkt mér ofan í það en ég þekki það þokkalega vel samt sem áður. Stærsta fyrirstaðan þarna er enn þá að mínu mati mismunandi afstaða í heilbrigðiskerfinu til verkefnisins. Ég ætla ekkert að fara mikið dýpra í það, en landlæknisembættinu var falið þetta verkefni og það akta ekki allir þá reglusetningu af hálfu ráðuneytisins. Því þarf að kippa í liðinn áður en við getum haldið þessu verkefni áfram sem metið er að kosti á bilinu 7–12 milljarðar kr., það hleypur á einhverjum slíkum stærðum.

Ég ætla að koma að (Forseti hringir.) síðari spurningunum í síðara svari mínu.