143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:17]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það er ekki lúxus fyrir ríka þjóð að láta af höndum rakna þannig að ég er algjörlega andstæður því sjónarmiði hæstv. ráðherra. Ég tek það líka fram að mig rekur ekki minni til þess að hæstv. ráðherra hafi sem almennur þingmaður hér slegið einhverja varnagla gagnvart þessu, það var að vísu einn þingmaður í hans flokki sem svo gerði. Núverandi hæstv. fjármálaráðherra kom hér og lauk sérstöku lofsorði á áætlunina og sagðist telja að hún væri raunhæf. Ég tel að það sé yfirlýsing um vantraust á efnahagsstefnu þessarar ríkisstjórnar ef hæstv. ráðherra er að gera því skóna að það þurfi að breyta áætluninni á næstu árum. Þá er hann náttúrlega að gera ráð fyrir því að hér sigli allt í kaldakol. Ég hef þrátt fyrir allt þá trú á ríkisstjórninni og Íslandi að svo verði alls ekki.

Varðandi norðurslóðir er það þannig að lítil þjóð þarf að tala hátt. Við höfum sérstaka legu landsins með okkur, en við þurfum líka að taka frumkvæði til þess að láta að okkur kveða í málaflokknum. Það gerðum við á síðustu fjórum árum. Okkur tókst það meðal annars vegna þess að við fengum, ekki mikið en svolitla aukningu á fjármunum til málaflokksins. Hæstv. ráðherra, ef hann ætlar að gera í blóðið sitt sem ráðherra norðurslóða verður að gera miklu betur á því sviði. Það er ekki nóg að hafa sendimenn sem tala á pöllum, við þurfum líka að vinna heimavinnu, geta tekið þátt í samstarfi. Það er mín ráðlegging til hans.

Tvær spurningar að lokum:

Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að verja þeim 45 millj. kr. sem eiga að fara í að huga betur að Evrópusamstarfi í samræmi við ályktunina sem var samþykkt hér? Ég vildi gjarnan fá útskýringu á því.

Í öðru lagi: Hvernig mun niðurskurður gagnvart Þýðingarmiðstöðinni koma fram gagnvart þeim þremur verkefnum sem eru á landsbyggðinni, þ.e. tveimur útibúum og einu verkefni öðru?

Síðasta spurningin að lokum:

Eru einhverjar viðræður í gangi núna varðandi breytingar á IPA-styrkjum sem áður var búið að samþykkja eftir för hæstv. ráðherra til Brussel?