143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:45]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Í fjárlagafrumvarpinu koma fram áform um stofnun aðalræðisskrifstofu Íslands í Nuuk á Grænlandi. Því ber að fagna. Tækifæri til samstarfs milli Íslendinga og nágranna okkar Grænlendinga liggja víða. Aukið samstarf milli þjóðanna mun án efa skapa mikinn og gagnkvæman ávinning fyrir bæði ríkin. Fróðlegt væri að heyra aðeins frá hæstv. utanríkisráðherra hver framtíðarsýn hans er um samstarf Íslands og Grænlands á næstunni.

Svo vekur einnig athygli að útgjöld til alþjóðastofnana verða 2,9 milljarðar í þessu frumvarpi sem er hækkun um 20% frá fjárlögum fyrra árs, aðallega vegna EFTA að því er virðist. Það vekur upp spurningar sem hæstv. utanríkisráðherra getur kannski varpað ljósi á. Er vitað hvernig þessar alþjóðastofnanir taka ákvarðanir sínar um aukin útgjöld aðildarríkja? Getur Ísland neitað að samþykkja slíkar hækkanir? Var hugsanlega gerð tilraun af hálfu Íslands til að sporna við hækkununum? Er ekki hætt við því að þessi útgjöld til alþjóðastofnana, sem margar eru mikilvægar, muni einfaldlega halda áfram að hækka frá ári til árs nema spyrnt sé við fótum?