143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:09]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það getur bara vel verið svo að okkur greini á, mig og hv. þingmann, um það hvaðan helst sé að vænta hagvaxtar í hagkerfinu og hvaða forsendur þurfi að vera fyrir því að hagvöxtur nái sér á strik. Ég er þeirrar skoðunar að það sé lykilatriði að skuldasöfnunin sé stöðvuð. Hún er efnahagsleg ógn við land okkar og það þarf að grípa þar í taumana með mun markvissari hætti en gert var í þeim fjárlögum sem lagt var upp með fyrir þetta ár og ljóst er í hvað stefndi ef staðið yrði við öll þau loforð sem gefin voru þar.

Ég vil líka benda á og það er sjálfsagt að halda því til haga að t.d. framlög til kvikmyndagerðar verða samkvæmt þeim samningi sem fyrrverandi ríkisstjórn gerði um hækkanir til þess málaflokks, við þann samning verður staðið. Framlagið verður hækkað um 70 milljónir eins og til stóð. Það er þá rétt að horfa á þróunina miðað við árið 2012 og sjá hvernig þessum sjóði miðar við það að við erum að auka framlögin þar inn til þess að efla kvikmyndagerð í landinu, til þess að skjóta undir hana styrkari stoðum.

Sama á t.d. við um Rannsóknasjóðinn. Það er ekki svo að allt það framlag sem lofað hafði verið til hans á grundvelli þess gjalds sem leggja átti á sjávarútveginn sem allir vissu að mundi ekki skila sér — meira að segja þeir sem lögðu það til áttuðu sig á því að það væri galli í því máli og það mundi aldrei skila tekjunum — verði fellt niður. Í því máli sem snýr að Rannsóknasjóðnum var samt sem áður ákveðið að standa við stóran hluta af þeirri hækkun sem lagt var af stað með vegna þess að það er samkomulag um og er fullur skilningur á því að mikil sóknarfæri felast í þeim sjóðum. Þess vegna viljum við efla þá, þess vegna hafa þeir verið efldir þó að þeir verði ekki efldir jafnmikið og lofað var í svokallaðri fjárfestingaráætlun.

Ég vil þá segja varðandi lokaorð hv. þingmanns varðandi lánasjóðinn að ég hlakka mjög til þeirrar umræðu í þeirri nefnd sem hv. þingmaður nefndi þar sem við getum þá farið vel í gegnum það mál allt saman. Ég held að það skipti máli.