143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:11]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég varð vör við það á síðasta kjörtímabili að núverandi hæstv. ráðherrar, sem þá voru hv. þingmenn í stjórnarandstöðu, trúðu mjög á mátt endurtekningarinnar. Ég sé að sú trú hefur ekki breyst því að við höfum hlustað hér á sömu ræðuna hjá hverjum einasta ráðherra. Á degi sem ætlaður er til að ræða sýn og stefnu í ólíkum málaflokkum eru þau svör sem við fáum ávallt þau sömu; að skuldasöfnun fyrri ríkisstjórnar sé málið og að hér sé stefnt að hallalausum fjárlögum. Ekki er rifjað upp að síðasta ríkisstjórn tók við ríkissjóði með 200 milljarða halla og gríðarlegt verk var unnið í því að taka á honum og ekki orð um það að núverandi ríkisstjórn hafi valið það sjálf og ákveðið að afsala almenningi þeim tekjum sem ráðist var í að byrja á strax á sumarþingi og haldið áfram með í þessum fjárlögum.

En ég ætla þó að gera tilraun til þess að spyrja hæstv. ráðherra nokkurra „konkret“ spurninga. Það kom ekki fram í máli hans en kemur þó fram í fjárlagafrumvarpinu að sú aukning sem þó verður í Rannsóknasjóð, sem er auðvitað miklu minni en áætluð var, 265 milljónum minni fyrir utan að 200 milljónir til markáætlunar, eru slegnar af. Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að ætlunin er að öll þessi aukning verði dregin til baka á næstu þremur árum. Miðað við langtímasýn og framtíðarstefnu ríkisstjórnarinnar er ekki áætlað að hafa neinn afgang hér 2013–2016 þannig að ekki eru ætlaðir neinir fjármunir til uppbyggingar.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvað finnst ráðherra um að farið verði með Rannsóknasjóð til baka á þá krónutölu sem hann var í hruninu og að verðlagi að sjálfsögðu áratugi aftur í tímann? Er hann sáttur við að það sé 11% úthlutunarhlutfall úr samkeppnissjóðum eins og var áður en þessi aukning kom til í Rannsóknasjóð?

Spurning númer tvö snýr að hækkun og skrásetningargjöldum í Háskóla Íslands og aðra opinbera háskóla. Þau voru hækkuð hér, ekki í síðustu fjárlögum heldur þarsíðustu fjárlögum. Rökstuðningurinn á bak við þá hækkun er að gjöldin eigi að sjálfsögðu að snúast um raunverulegan kostnað, þau eru byggð upp á ákveðnum þáttum. Sú hækkun sem þá var ákveðin upp í 60 þús. kr. byggði á verðlagsforsendum á þeim þáttum sem gjöldunum er ætlað að greiða. Byggir þessi hækkun upp í 75 þús. kr. á þeim verðlagsforsendum? Getur ráðherra hæstv. svarað því?

Þriðja spurning: Í fylgiritinu með fjárlögum kemur fram að stefnt skuli að breytingum á rekstrarformum háskóla. Mig langar að inna hæstv. ráðherra eftir því hvaða ákvarðanir hafi verið teknar um breytingar á rekstrarformum háskóla.

Í fjórða lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvernig nákvæmlega hann hyggist innleiða breytingar á fyrirkomulagi framhaldsskóla í samræmi við lögin frá 2008 ef öll framlög til innleiðingar nýrrar menntastefnu og nýrra námskráa eru slegin af og núlluð út í þessu fjárlagafrumvarpi. Hvernig nákvæmlega á að innleiða breytingar? Er afturhvarf frá þeim lögum sem flokkssystir hæstv. ráðherra, hæstv. fyrrverandi menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, boðaði þegar hún lagði upp með fjölbreytni í framhaldsskólum og fjölgun á námsbrautum til þess að mæta þörfum einstakra nemenda?

Ég vona að hæstv. ráðherra ráði við að svara þessum örfáu spurningum.