143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:27]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hvað varðar Ríkisútvarpið fór ég yfir það í svari áðan og vil helst ekki eyða of miklum tíma í að endurtaka það. Staðan er sú að þrátt fyrir þann texta sem er í frumvarpi til fjárlaga, sem er nokkuð villandi ef menn þekkja ekki bakgrunn málsins, er í raun og veru gerð ríkari niðurskurðarkrafa til Ríkisútvarpsins en flestra annarra stofnana. Ekki mesta, en það er gerð nokkuð rík krafa vegna þess að Ríkisútvarpinu er einungis að hluta, samkvæmt þeirra eigin mati, bætt upp það tekjutap sem stofnunin verður fyrir af því að hún þarf að draga úr auglýsingum og skerðast möguleikar hennar á aukinni tekjumyndun vegna þess.

Hvað varðar Íþróttasamband fatlaðra er rétt að hafa í huga að á árinu 2013 fóru 5 milljónir alveg sérstaklega inn á þann lið til undirbúnings fyrir Ólympíuleikana á næsta ári. Sú fjárhæð, þær 5 milljónir halda sér í þessu frumvarpi þannig að samanlagt verður búið að bæta við til Íþróttasambands fatlaðra 10 milljónum vegna þessa, 5 milljónir í fyrra og svo aftur 5 milljónir núna verði frumvarpið að lögum.

Virðulegi forseti. Hvað varðar kvikmyndirnar tel ég að alveg nauðsynlegt sé að hafa í huga og skoða í samhengi málsins að þegar horft er til ársins 2012 og undanfarinna ára — ef við sleppum árinu í ár og þeirri aukningu sem átti sér stað vegna hinnar svokölluðu fjárfestingaráætlunar sem var fjármögnuð með veiðileyfagjaldinu sem við vissum og vitum að hefði aldrei skilað þeim fjármunum sem þeim var ætlað að skila þótt það hefði verið lagt á óbreytt — er það svo að verið er að auka jafnt og þétt þetta framlag. Meðal annars verður að sjálfsögðu staðið við það samkomulag sem fyrri ríkisstjórn gerði um 70 millj. kr. hækkun til Kvikmyndasjóðsins þannig að áfram sé hægt að efla hér kvikmyndastarfið og kvikmyndagerð.

Virðulegur forseti. Ég tel fráleitt að leggja út af þessu svona, eins og hér var nefnt, að það væri gjörsamlega verið ganga af greininni dauðri, ég held að það sé langur vegur frá því.