143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[19:29]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður veit, enda situr hún í verkefnastjórn sem snýr að framtíðarskipan húsnæðismála, er þar verið að huga að framtíðarfyrirkomulagi Íbúðalánasjóðs. Vinnan er núna að fara á fullt og verið er að klára tilnefningar í samvinnuhópinn. Hann er grunnurinn að breytingunum sem við ætlum að gera. Ég tel að þar inni í hljóti að vera hugmynd um hvernig við ætlum síðan að gera breytinguna, þ.e. að breyta húsaleigubótum og vaxtabótum yfir í húsnæðisbætur, alveg til enda. Það voru allir sammála um sem voru í starfshópi sem hv. þingmaður stýrði á síðasta kjörtímabili varðandi húsnæðisstefnu. Ætlunin er að stefna að því, ég hef alla vega ekki skipt um skoðun hvað það varðar og ég heyri greinilega að hv. þingmaður hefur heldur ekki skipt um skoðun.

Þegar ég fór yfir stöðuna þegar ég kom að þessu máli í ráðuneytinu sá ég hins vegar að vinnan hafði fyrst og fremst snúið að húsaleigubótunum og samskiptum við sveitarfélögin. Breytingarnar sem snúa að vaxtabótunum og því að sameina þessi mál í eitt kerfi voru ekki komnar nándar nærri eins langt og breytingarnar sem sneru að húsnæðisbótunum. Eina ástæðan fyrir því að ég taldi mikilvægt að vera með fulltrúa frá fjármálaráðuneytinu í verkefnisstjórninni, í samvinnuhópnum, var að þetta væri einn af þeim þáttum sem hugað væri að.

Eins og hv. þingmaður benti á er mjög mikilvægt að skoða breytingarnar sem hæstv. fjármálaráðherra leggur til, eins og breytingar á stimpilgjöldunum. Allar breytingar sem ráðherra eins málaflokks gerir, t.d. jafn mikilvægs og fjármálaráðuneytisins, koma inn á húsnæðismálin. Það er líka ástæðan fyrir því að það er svo mikilvægt að hafa þetta þarna innan dyra og það er (Forseti hringir.) alveg rétt ábending að hafa þurfi áhrifin í huga. En við getum hins vegar ekki látið (Forseti hringir.) slæma stöðu Íbúðalánasjóðs stoppa okkur ítrekað við að mynda það kerfi í húsnæðismálunum (Forseti hringir.) sem við viljum hafa hér til framtíðar.