143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[19:35]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Það var náttúrlega ekkert af því sem snýr að niðurskurði sem ég tel að nokkur ráðherra hafi verið sérstaklega sáttur við. Ég held að afstaða fyrri ráðherra sem sátu á síðasta kjörtímabili hafi verið nákvæmlega sú sama, það hafi ekki verið nein gleði þegar verið var að leggja til að skerða fæðingarorlofið, lækka þakið og gera ýmsar breytingar sem voru nauðsynlegar vegna erfiðrar stöðu ríkissjóðs.

Ég kannast líka við það að þegar fyrrverandi og reyndar núverandi formaður velferðarnefndar var að vinna þær breytingar sem voru gerðar á fæðingarorlofslögunum, bæði hækkun á þakinu og lengingin og skipuleggja þær, voru miklar vangaveltur uppi. Það má segja að ég hafi að vissu leyti fylgst með því þá svona til hliðar þótt ég hafi setið í nefndinni í stjórnarandstöðu. Núna fór ég sjálf í gegnum þessar vangaveltur upp á hvað það væri sem ég teldi best að gera.

Niðurstaðan varð sú að horfa á það hvernig við næðum markmiðum laganna sem koma mjög skýrt fram — og það mættu fjöldamörg önnur lög á Íslandi vera með svona skýra markmiðsgrein. Þau snúast um rétt barna til að njóta samvista við báða foreldra og síðan að tryggja jafnrétti á vinnumarkaði. Við höfum séð að karlar nýta sér síður rétt sinn þannig að við náum ekki markmiðum laganna með því að hafa þakið svona lágt. Maður gæti líka haft áhyggjur af því að það væri jafnvel verið að draga úr möguleikum á jafnrétti á vinnumarkaði ef við héldum áfram að vera með tiltölulega lágt þak en lengdum fæðingarorlofið. (Forseti hringir.) Niðurstaðan varð því sú að réttara væri að byrja að hækka þakið og ná skerðingum til baka áður en við færum í að bæta við réttindum.