143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

óskráðar íbúðir sem leigðar eru ferðamönnum.

[13:48]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Þetta er mál sem við þekkjum flest og hefur komið til umræðu nokkrum sinnum í innanríkisráðuneytinu. Samtök ferðaþjónustunnar hafa meðal annars komið þar reglulega til að ámálga þann vanda sem þau telja að stafi af þessu. Ég ætla því ekki að lýsa málinu en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni, sem einnig hefur rætt þessi mál í mínu ráðuneyti, er ákveðinn hópur starfandi sem í eiga sæti fulltrúar frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum atvinnulífsins, ríkisskattstjóra og fleirum. Lögreglan hefur náð að fylgja eftir öllum þeim ábendingum sem komið hafa fram í þeim hópi sérstaklega. Hins vegar er það alveg rétt, sem kemur fram hjá hv. þingmanni, að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki haft mannafla til að sinna ákveðinni frumkvæðisvinnu í þessu.

Þegar spurt er að því hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir sérstakri fjárveitingu í þetta þá minni ég á að samkvæmt frumvarpi til fjárlaga er gert ráð fyrir 500 milljóna viðvarandi viðbótarframlagi til löggæslu á landinu. Það verður í höndum lögreglunnar að forgangsraða því fjármagni. Við höfum sagt að það skuli að mestu leyti fara til að fjölga lögreglumönnum og löggæsluaðilum á landsbyggðinni en auðvitað er það svo að telji menn að hér á höfuðborgarsvæðinu sé þörf á að forgangsraða í þágu þessa þá ætlast ég til að lögreglan forgangsraði þeim verkefnum. Ég hef ekki séð fyrir mér að flytja sérstakt frumvarp eða óska eftir aukafjárveitingu til þess.