143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

óskráðar íbúðir sem leigðar eru ferðamönnum.

[13:51]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Það þarf svo sem ekki að lengja þessa umræðu. Ég held að ég og hv. þingmaður séum alveg sammála um mikilvægi málsins. Ég árétta hins vegar að ég ætlast til þess að lögreglan sjálf, á höfuðborgarsvæðinu í þessu tilviki, forgangsraði fjármagni sínu með hliðsjón af því sem er talið mikilvægast. Í þessu verðum við líka að velta því fyrir okkur að lögreglan á sannarlega að hafa eftirlit með þessu en það er spurning hvort frumkvæðisskyldan eigi að koma beint frá lögreglunni eða hvort ábendingar eigi frekar að koma frá skattyfirvöldum og lögreglan síðan að fylgja því eftir. Það er lengri og ítarlegri umræða en ég ítreka að lögreglan mun fá ríkara svigrúm til athafna vegna aukins fjármagns og við skulum treysta því að lögreglan forgangsraði þeim með farsælum og góðum hætti.