143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[14:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þeir sem greiða tekjuskatt í lægsta skattþrepinu greiða í dag lægstu prósentuna, þ.e. 22,9%, og munu áfram, þrátt fyrir að þeir sem greiða í miðþrepinu greiði eitthvað lægri prósentu, þ.e. 0,8% prósentustigum lægri skatt, vera í lægsta þrepinu, greiða lægst hlutfall launa sinna í skatt og borga um leið auðvitað færri krónur af sömu fjárhæð.

Þess utan er þeim aðgerðum sem ég hef lýst hér, að verja nýlegar hækkanir á vaxtabótakerfinu og barnabótakerfinu, sérstaklega miðað að tekjulágu fólki. Það er ekki hægt að gera lítið úr því hversu miklu munar þar eins og ég rakti í ræðu minni áðan, að breytingar á vaxtabótakerfinu, hefðu þær komið til framkvæmda eins og lögin standa í dag, um næstu áramót, mundu útgjöld ríkissjóðs lækka um það bil um einn milljarð. Þeim milljarði er þá varið sérstaklega til þeirra sem lægstar hafa tekjurnar.

Varðandi það bú sem tekið var við af nýrri ríkisstjórn hefur hallinn síðastliðin tvö ár, þ.e. árið 2012 og eins og það stefnir í að árið 2013 endi, verið yfir 30 milljörðum og það þurfti því mikið átak til þess að vinda ofan af þeirri stöðu. Hallinn hefði að óbreyttu verið upp undir 30 milljarðar þannig að þetta gerist ekki af sjálfu sér.

Varðandi barnaföt er gert ráð fyrir því í þingmálaskránni að það geti komið fram frumvarp um breytingar á virðisaukaskattslögum sem gæti meðal annars fjallað um það.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður (Forseti hringir.) kom aðeins inn á að það er flóknara verk en ég hafði talið í fyrstu að útfæra slíka breytingu þannig að við náum markmiðinu. En (Forseti hringir.) stóra spurningin sem ég auðvitað spyr mig að er: Er hv. þingmaður sammála því að gera (Forseti hringir.) slíka breytingu?