143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

staða Landspítalans.

[15:47]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, fyrir þessa mikilvægu umræðu um stöðu Landspítalans. Eftir margra ára niðurskurð til heilbrigðismála bundu landsmenn miklar vonir við að nú væri komið að uppbyggingu. Þær vonir eru að bresta. Stefnuleysi og hringlandaháttur ríkisstjórnarinnar þegar kemur að heilbrigðismálum og þá ekki síst Landspítalanum er óþolandi. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er stefnan reyndar alveg skýr, það á að skera niður, draga til baka fyrri ákvarðanir um uppbyggingu, svo sem um byggingu nýs spítala. Þá er fellt niður 600 millj. kr. tímabundið framlag spítalans til tækjakaupa, en sú viðbótarfjárhæð hafði þó ekki verið ákveðin í einhverju tómarúmi heldur í kjölfar mikillar og þungrar umræðu í samfélaginu um gamlan og úr sér genginn tækjakost.

Það á að ná inn peningum á móti þeirri hagræðingarkröfu sem gerð er á spítalann með því að innheimta gjald fyrir hvern legudag á sjúkrahúsinu sem farið er að kalla gistináttagjald. Þetta er allt skýrt samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Hæstv. fjármálaráðherra hafði þó ekki einu sinni náð að mæla fyrir því þegar farið var að draga í land. Hæstv. forsætisráðherra lætur eins og honum standi í raun á sama um gistináttagjaldið ef þingið geti bara skorið eitthvað annað í burtu í staðinn. Hv. formaður fjárlaganefndar segist tilbúin að hætta við þennan tekjulið.

Þetta er ábyrgðarlaus málflutningur, ekki hvað síst í viðkvæmum málaflokki. Það gengur ekki að tala út og suður en einstakir forustumenn ríkisstjórnarflokkanna, nú síðast hv. þm. Brynjar Níelsson í umræðum um störf þingsins, slá úr og í. Niðurskurður á Landspítalanum er vondar fréttir og (Forseti hringir.) ekki í neinu samræmi við þau skýru skilaboð (Forseti hringir.) sem við sem tókum þátt í kosningabaráttu í vor (Forseti hringir.) fengum frá kjósendum.